145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hefur unglingadrykkja dregist mjög mikið saman, eins og við höfum rætt mikið hérna. En það hefur ekki bara þau áhrif að unglingar séu sjaldnar fullir, það hefur líka þau áhrif að þeir eru ólíklegri til þess að þróa með sér vandamál seinna meir á lífsleiðinni, þegar þeir verða fullorðnir. Því eldra sem fólk er þegar það byrjar að neyta áfengis eða annarra vímuefna, þeim mun ólíklegra er að það lendi í vandræðum á borð við fíkn eða með einhvers konar misnotkunarvandamál. Með hliðsjón af því að unglingadrykkja fer óumdeilanlega minnkandi kemur sá aldurshópur sem nú er að vaxa úr grasi til með að kunna betur að fara með áfengi í framtíðinni. Það væri stórsigur fyrir samfélag okkar, bæði hvað varðar misnotkun á áfengi og sömuleiðis hvað varðar aðgengi eða minna vesen við aðgengi, ef það væri hægt að ná báðum markmiðum á sama tíma. Ég fæ ekki betur séð en að það takist tiltölulega vel með stórauknu aðgengi að áfengi en sömuleiðis stórkostlega mikið minni neyslu unglinga á áfengi.

Nú höfum við tekið þau skref í mjög langan tíma að auka aðgengi að áfengi. Ég velti fyrir mér hvort það hafi ekki, með hliðsjón af reynslunni, tekist vel. Það er ekki endilega orsakasamhengi þarna á milli, reyndar sennilega ekki, en það hefur tekist vel. Þá finnst mér kjörið að fara að íhuga næstu skref. Hvort það sé þessi tiltekna útfærsla eða ekki er ég ekki alveg sannfærður um. Ég er til dæmis ekki sannfærður um að það þurfi endilega að leggja ÁTVR niður. Það er kannski hægt að heimila eitthvert meira frjálsræði í þessu án þess að leggja stofnunina niður. En miðað við árangurinn sem hefur náðst gegn þeim vandamálum sem valda þriðja aðila miska, börnum o.s.frv., þykir mér einsýnt að íhuga næstu skref.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, því að ég veit að við komumst ekki að endanlegri sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig fyrirkomulagið ætti að vera: Ef hv. þingmaður gæti breytt fyrirkomulaginu núna hvernig mundi hann breyta því?