145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:08]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar fróðlega ræðu og tilvísanir í umsagnir aðila á borð við landlæknisembættið, Læknafélag Ísland, margvísleg samtök sem beita sér gegn vímuefnum og barna- og fjölskylduverndina. Þaðan komu býsna sverar yfirlýsingar og ljóst að þar á bæ finnst mönnum það vera hið versta mál sem við höfum hér til umfjöllunar.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann um annað, þ.e. annars vegar um orðin og hins vegar um efndirnar í Stjórnarráði Íslands. Er ekki mikilvægt að Alþingi sjái til þess að ríkisstjórnin standi við þá stefnu sem hún kynnir okkur hér og staðhæfir að hún ætli að framfylgja? Við höfum margoft ítrekað óskir okkar um að fá hæstv. heilbrigðisráðherra til fundar við okkur til að fara nákvæmlega yfir þetta, að saman fari orð og efndir ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég er óþreytandi að vísa í yfirlýsingar sem hann gaf á upplýsingavef Stjórnarráðsins hinn 24. janúar árið 2014.

Ég spyr því hv. þingmann: Er þetta ekki þungamiðjan, á þetta ekki að vera þungamiðjan í okkar umræðu? Ég tek auk þess undir það með hv. þingmanni að vekja athygli á álitsgerð landlæknisembættisins og annarra heilbrigðisaðila og spyrja hvernig á því standi að ekki á að hlusta á þessa aðila. En er það ekki þetta, orðin og efndirnar hjá ríkisstjórninni á þessu sviði?