145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég segi ekki að ég byrji hvern dag á því að lesa stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, en það vill svo skemmtilega til að ég á hann alltaf innan seilingar og kíki á hann einstöku sinnum. Það vill svo til að í dag, þegar verkföll hófust hjá mjög stórum stéttum, þá ég mundi hvar sá hluti af stjórnarsáttmálanum var á blaðinu, en hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Með aðgerðum sínum hyggst ríkisstjórnin einnig eyða þeirri pólitísku óvissu sem hefur verið of áberandi þáttur í íslensku þjóðlífi á undanförnum árum. Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar.“

Þetta er eitt dæmi um orð og efndir, um það sem fólk segir. Ég vil ekki halda því fram að menn ætli sér eitthvað annað þegar þeir setja orðin á blað eða þegar þeir leggja upp í sína vegferð. Þegar heilbrigðisráðherra undirritar áfengis- og vímuvarnastefnu þá held ég að það sé gert af heilum hug. Ég held að Framsóknarflokkurinn á sínu landsþingi, þegar hann samþykkir að ekki skuli hefja sölu á áfengi í matvörubúðum, sé að samþykkja það af heilum hug. Ég held raunar að það frumvarp sem lagt er fram hér, af hv. þm. Willum Þór Þórssyni og fleirum, sé líka lagt fram af heilum hug. En hins vegar er það svolítið snúið þegar þetta fer allt saman hvert gegn öðru.

Þegar hæstv. fjármálaráðherra kemur hér fram og mælir sérstaklega með því að áfengi verði sett í matvörubúðir, þrátt fyrir allt annað sem við höfum séð á öðrum vettvangi, þá verður eiginlega ekki við annað unað en við sjáum betur hvert forusta ríkisstjórnarinnar vill fara með þetta mál. Auðvitað er það komið til þingsins og við þurfum bara að vinna úr því hér, en þetta er sannarlega óvenjulegt þegar þungir textar eins og samstarfsyfirlýsing vísar í eina átt en ýmsar yfirlýsingar aðrar í allt aðra átt.