145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:13]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér um að það hljóti að teljast ábyrgðarleysi í hæsta máta, ef ekki ósvífni og mikil ósvífni, að heita því opinberlega í krafti síns ráðuneytis, og ég vitna hér orðrétt, „að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum“; að heita þessu annars vegar og styðja síðan, þó ekki sé nema með þögninni, frumvarp af því tagi sem við erum nú með til umfjöllunar og kveður á um bann við því að samfélagið annist dreifingu á áfengi. Það á að banna það og færa áfengi þar með inn í hillur matvörubúða sem gengur þvert á þá yfirlýsingu sem ég var að vísa til. Hlýtur þetta ekki að teljast vera ábyrgðarleysi og ósvífni í hæsta máta?