145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:26]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt, það eru margir þættir sem þarna koma til sögunnar. En það sem er kannski mest afgerandi er að bæta við nokkrum viðbótarkílómetrum í hilluplássi í matvöruverslunum fullum af vínflöskum. Það er grundvallarmunur á þessu.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann á móti, af því að við eigum hér í andsvörum, hvort hann er sammála samflokksmanni sínum hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni sem velti því fram, reyndar ekki úr ræðustól, hvort lýðheilsusjónarmiðin snerust í reynd ekki um gamalkunnugt stef úr heimi heimspekinnar og trúarbragðanna: Á ég að gæta bróður míns þegar hann fellur? Er ekki eðlilegt að við grípum hann þá í okkar faðm? Berum við ekki samfélagslega ábyrgð og er það ekki svo að þeir sem standa höllum fæti eigi alla vega að njóta vafans þegar verið er að smíða fyrirkomulag sem gerir einhverjum það auðveldara að nálgast eina flösku af Johnnie Walker?