145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:34]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst með þessari umræðu í nokkuð mörg ár og tók fyrst þátt í henni af alvöru í þessum þingsal þegar átti að reyna að knýja þessar sömu breytingar fram í byrjun október árið 2008. Þá var mikill hávaði hér utan dyra enda hrunið að hefja sína innreið.

Ég hef reynt að leggja mig eftir því að skoða gögn í þessu máli og þau eru ófá. Ég hef sótt ráðstefnur um málið. Ég hef verið boðinn á ráðstefnu sem skipulögð var af hálfu Evrópuráðsins. Ég hélt erindi sjálfur í Aþenu fyrir rúmu ári. Þar voru sérfræðingar frá Íslandi, frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Það var hlustað á þá sem héðan komu og vísað í íslenskar rannsóknir sem eru viðamiklar. Það er hlustað eftir því sem Íslendingar segja. En hvergi hefur orðið á vegi mínum ein einasta skýrsla sem hnekkir því sem við höfum hér verið að vísa til og er málflutningur Alþjóðaheilbrigðisstofnunar og landlæknisembættisins. Þetta er fyrst og fremst í mínum huga pólitísk kredda og kannski fallega hugsuð hugsjón hjá einhverjum. Það er verra ef maður hefur á tilfinningunni að verið sé að ganga erinda stóru verslunarkeðjanna sem eru ákafar að fá þessa verslun til sín. Þetta eru miklir hagsmunir, það eru miklir peningar þarna í húfi.

Í mínum huga er þetta barátta um kreddu annars vegar og hins vegar hagsmuni. Þá finnst mér spurningin vera þessi: Á hvorn aðilann viljum við hlusta, heilbrigðisyfirvöld og grasrótarsamtök eða stóru verslunarkeðjurnar? Ég er ekki í nokkrum vafa um á hvern ég vil hlusta.