145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

varamenn taka þingsæti.

[15:02]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Borist hefur bréf frá 12. þm. Suðvest., Birgittu Jónsdóttur, um að hún geti ekki sótt þingfundi á næstunni. Eins og tilkynnt var á vef Alþingis tók því sæti á Alþingi föstudaginn 16. október síðastliðinn 1. varamaður á lista Pírata í kjördæminu, Björn Leví Gunnarsson.

Björn Leví Gunnarsson hefur áður tekið sæti á Alþingi og er boðinn velkominn til starfa.

Borist hafa bréf frá Willum Þór Þórssyni, 5. þm. Suðvest., Oddnýju G. Harðardóttur, 6. þm. Suðurk., og Páli Jóhanni Pálssyni, 5. þm. Suðurk., um að þau geti ekki sinnt þingmennsku á næstunni.

Í dag taka því sæti á Alþingi sem varamenn fyrir þau Sigurjón Kjærnested, 1. varamaður á lista Framsóknarflokksins í Suðvest., Björgvin G. Sigurðsson, 1. varamaður á lista Samfylkingarinnar í Suðurk., og Fjóla Hrund Björnsdóttir, 1. varamaður á lista Framsóknarflokksins í Suðurk.

Þau hafa öll áður tekið sæti á Alþingi og eru boðin velkomin til starfa á ný.

Borist hafa bréf frá 10. þm. Norðaust., Brynhildi Pétursdóttur, og 7. þm. Suðurk., Ásmundi Friðrikssyni, um að þau geti ekki sinnt þingstörfum á næstunni. Í dag taka því sæti á Alþingi 1. varamaður á lista Bjartrar framtíðar í Norðaust., Preben Jón Pétursson, og 3. varamaður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurk., Sandra Dís Hafþórsdóttir. 1. og 2. varamaður á lista í kjördæminu hafa boðað forföll.

Kjörbréf Prebens Jóns Péturssonar og Söndru Dísar Hafþórsdóttur hafa þegar verið rannsökuð og samþykkt, en þau hafa ekki áður tekið sæti á Alþingi og ber því að undirskrifa drengskaparheit að stjórnarskránni.

 

[Preben Jón Pétursson, 10. þm. Norðaust., og Sandra Dís Hafþórsdóttir, 7. þm. Suðurk., undirrituðu drengskaparheit að stjórnarskránni.]