145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

afsláttur af stöðugleikaskatti.

[15:07]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er hefur undanfarnar vikur staðið glíma ríkisstjórnarinnar við að komast að niðurstöðu um það hvernig eigi að ákveða hvort veittur verði afsláttur af stöðugleikaskatti með móttöku stöðugleikaframlaga frá slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja eða hvort skatturinn skuli leggjast á um áramót, eins og gert er ráð fyrir samkvæmt lögum þeim sem samþykkt voru hér í sumar.

Það hefur gætt mjög misvísandi upplýsinga að þessu leyti. Í frétt frá Bloomberg-fréttaveitunni í morgun er sagt að til standi að hafna tilboðum um stöðugleikaframlög frá slitabúunum, sem er athyglisvert vegna þess að af hálfu stjórnvalda var lýst sérstakri ánægju með þau tilboð þegar þau komu fram í vor og ekkert hefur verið upplýst opinberlega um forsendur þessara mikilvægu ákvarðana. Við höfum ítrekað óskað hér eftir fundum um þau mál á vettvangi formanna flokkanna eða í samráðsnefnd um afnám hafta. Ég met það við hæstv. fjármálaráðherra að hann hefur gert viðvart um það að við eigum að vera viðbúin fundi í samráðsnefnd um afnám hafta í dag eða á morgun, en ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort það sé ekki algerlega ljóst að allar upplýsingar um forsendur ákvörðunar um að taka við stöðugleikaframlögum frekar en að láta skattinn leggjast á verði gerðar opinberar áður en slík ákvörðun verði tekin.

Ótti okkar er auðvitað sá að í bakherbergjum forustumanna stjórnarflokkanna verði þessum málum ráðið til lykta á óljósum forsendum og kröfuhöfum veittur afsláttur upp á hundruð milljarða án þess að efnislegar forsendur slíkrar ákvörðunar verði þjóðinni ljósar. Ég hlýt þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra: Megum við ekki treysta því að allar þessar forsendur verði gerðar opinberar áður en ákvörðun verður tekin af hálfu ríkisstjórnarinnar?