145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

afsláttur af stöðugleikaskatti.

[15:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vona að við komumst yfir þessa nálgun á málinu í þinglegri meðferð. Ég vonast til þess að við getum á þessum dögum og vikum fram undan, þar sem menn leggja mat á það sem er að gerast hér, komist yfir þann augljósa freistnivanda sem mér finnst hv. þingmaður eiga erfitt með að komast yfir, sem er að segja: Skoðum stærstu krónutöluna, hún hlýtur að vera best fyrir okkur Íslendinga og okkar hagsmuni. — Þetta er ekki þannig mál. Málið var rætt hér á eðlilegum forsendum í sumar og staðreyndin er sú að við gripum inn í atburðarás sem við gátum ekki þolað lengur og sögðum: Við munum leggja skatt nema menn uppfylli tiltekin stöðugleikaskilyrði, þá munum við láta skattinn leysa úr vandanum. Stöðugleikaskilyrðin elta hins vegar vandamálið. Þetta var nokkuð skýrt í sumar og er enn þá alveg ljóst. Við erum að leysa greiðslujafnaðarvandann. Menn skulu ekki láta sér detta það í hug að menn séu komnir á þann stað (Forseti hringir.) sem við erum í í dag án þess að hafa metið áhrif þessara mála á greiðslujöfnuð til framtíðar. (Forseti hringir.) Hvernig dettur mönnum í hug að láta slíkt út úr sér?