145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

verkföll og launakröfur ríkisstarfsmanna.

[15:14]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Nú eru enn einar kjaraviðræður ríkisins við starfsmenn sína komnar í hnút á Íslandi. Við erum að tala um fjórða verkfallið á einu ári. Öll þessi verkföll hafa haft víðtæk áhrif í samfélaginu öllu.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ber ábyrgð á þessum viðræðum fyrir hönd ríkisins. Ég spyr einfaldlega: Hvernig stendur á þessu? Hvers vegna gerist þetta aftur og aftur? Nú hafa félögin SFR – stéttarfélag, Sjúkraliðafélag Íslands og Landssamband lögreglumanna verið samningslaus í á sjötta mánuð. Krafa þeirra er sanngjörn og einföld og skýr. Þau vilja fá sambærilegar kjarabætur og aðrir hærra launaðir starfsmenn ríkisins hafa fengið. Það hlýtur að vera sanngjarnt. Hvað telur hæstv. ráðherra ósanngjarnt við þessar kröfur? Er ósanngjarnt að fara fram á sambærilegar kjarabætur og gerðardómur dæmdi BHM og hjúkrunarfræðingum á grundvelli laga sem sett voru hér að tillögu hæstv. fjármálaráðherra sjálfs þegar þau félög voru í verkfalli?

Hæstv. ráðherra til upprifjunar má líka lesa hér upp úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna þar sem segir með, leyfi forseta:

„Unnið verður að víðtækri sátt við aðila vinnumarkaðarins um þróun vinnumarkaðar og uppbyggingu til framtíðar. Það er forsenda þess að Íslendingar geti hafið nýtt skeið vaxtar og stöðugleika að íslenskt efnahagslíf njóti að nýju trausts á innlendum sem erlendum vettvangi.“

Hvað með þá staðreynd, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra og samstarfsflokknum hefur mistekist sú tilraun að ná víðtækri sátt aðila á vinnumarkaði og að þróun vinnumarkaðar hefur ekki verið endurskoðuð heldur erum við hér að horfa upp á fjórða verkfallið á einu ári?