145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

verkföll og launakröfur ríkisstarfsmanna.

[15:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég vil nú reyndar meina að við höfum aldrei verið jafn nærri því og við erum í dag að gera breytingar á íslenska vinnumarkaðslíkaninu. Um það snúast viðræður við opinberu félögin sem standa yfir og nú þegar við eigum þetta samtal er fundur í gangi. Samtalið er því lifandi og ég vonast að sjálfsögðu til þess að það beri ávöxt.

Ég er orðinn talsvert leiður á því að menn komi hingað upp og stilli málinu upp með þeim einfalda hætti sem hv. þingmaður gerði. Eru þetta ekki sanngjarnar kröfur? Á ekki bara að fallast á þær? Þetta var sagt þegar læknarnir voru í verkfalli og þegar við ræddum hér læknaverkfallið. Þetta var sagt í kennaradeilunni. Þetta var sagt í tilfelli hjúkrunarfræðinga. Í öllum vinnudeilum koma menn hingað upp og segja: Af hverju fellst ríkið ekki á kröfurnar? Voðalega eru menn ósanngjarnir.

Á sama tíma sjáum við að útreikningar sem kynntir eru til sögunnar í þessum viðræðum og Samtök atvinnulífsins hafa bent á — Seðlabankinn hefur hækkað vexti út af þeirri þróun sem hefur orðið á vinnumarkaði — sýna allir að ef það á að rúlla yfir allan vinnumarkaðinn mestu hækkunum sem hafa fengist í einstökum kjaraviðræðum þá erum við að sigla inn í skeið verðbólgu og hærri vaxta. Varla getur það verið eftirsóknarvert.

Við Íslendingar þurfum að lúta sömu lögmálum og aðrir þegar kemur að því að við getum ekki tekið út meiri launahækkanir yfir tíma en framleiðni vex í landinu. Þetta er svona einfalt, nema við viljum fá aukna verðbólgu og þar af leiðandi hærri vexti. Ég ætla að segja það fyrir mitt leyti að við þurfum að finna þetta jafnvægi í samtalinu sem á sér stað núna. Við þurfum að greiða úr þeirri stöðu sem upp er komin, þ.e. að við höfum nú þegar tekið út talsvert (Forseti hringir.) umfram framleiðniaukninguna, og finna nýtt jafnvægi. Fyrir mína parta skiptir einna mestu máli (Forseti hringir.) að við ljúkum þessari lotu með því að koma út úr henni (Forseti hringir.) með nýtt vinnumarkaðslíkan.