145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

verkföll og launakröfur ríkisstarfsmanna.

[15:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að spyrja í kjölfarið á svari hæstv. ráðherra hvort ráðherra telji eðlilegt að halda þeim stéttum niðri sem nú eiga í kjaradeilum og láta þær bera ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika. Hvað er ósanngjarnt við það að vilja fá sambærilegar hækkanir og aðrar stéttir sem hafa fengið hækkanir, jafnvel samkvæmt gerðardómi? Við erum að tala um að þau félög sem eru núna í verkfalli vilji einfaldlega fá kjarabætur sem þessi lög leiddu til og hæstv. ráðherra ber ábyrgð á.

Hvers vegna enda allar kjaraviðræður sem hæstv. ráðherra ber ábyrgð á í illdeilum? Hann lýsti því nýlega yfir að hann vildi koma í veg fyrir að kjaraviðræður lentu sífellt í illdeilum og verkföllum. Hvernig ætlar hann að vinna að því? Hvað ætlar hann að gera í því? Hann er augljóslega kominn út í horn því að þetta er orðið mynstur. Þegar hann kemur nálægt kjaradeilum enda þær í illdeilum. Liggur ábyrgðin ekki fyrst og fremst hjá honum sjálfum og í því að hann samdi sjálfur við lækna um kjör sem hann (Forseti hringir.) hefur síðan ekki viljað veita kvennastéttum?