145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

loftslagsráðstefnan í París.

[15:21]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Á dögunum birtist í bandaríska stórblaðinu Washington Post frétt þess efnis að hitastig sjávar suður af Íslandi og Grænlandi væri í sögulegu lágmarki. Þeirri frétt fylgdi mynd af hnettinum sem sýndi hvar þetta svæði væri nákvæmlega og hvernig hitastig væri að mælast í höfunum í heiminum öllum. Þetta rímar við kenningar sem settar voru fram í heimildarmynd og fyrirlestri fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, Als Gores, An Inconvenient Truth, fyrir nokkrum árum um áhrif bráðnunar Grænlandsjökuls á Golfstrauminn og þar af leiðandi höfin í kringum Ísland.

Um þetta var fjallað eins og ég sagði í Washington Post og á bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN en þetta vekur auðvitað spurningar og er áminning fyrir Íslendinga um þær alvarlegar afleiðingar sem hnattræn hlýnun gæti haft fyrir Íslendinga. Það eru fá tækifæri í þeirri mynd fyrir Íslendinga og því er spurt hér: Hver eru skilaboð íslenskra stjórnvalda á loftslagsráðstefnunni í París? Á dögunum sagði hæstv. forsætisráðherra frá því að Ísland ætlaði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40%, eins og er markmið Evrópusambandsins en óljóst er hvort Ísland ætlar að gera það sjálfstætt, eitt fyrir sig, að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% eða hvort Ísland ætlar að gera það í samfloti með Evrópusambandinu sem er nú býsna skuldbindingarminni aðgerð fyrir hönd Íslands.

Hver eru skilaboð hæstv. umhverfisráðherra í París í vetur?