145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[15:50]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mér finnst vera æpandi þörf fyrir þessa umræðu og að Ísland marki sér innflytjendastefnu. Mér finnst einhvern veginn á Íslandi vera ríkjandi stefna sem hefur aldrei verið rædd. Ísland er lokað land. Það var einhvern tímann ákveðið, eða var það ákveðið? Ég veit það ekki. Hverjar eru forsendurnar fyrir því? Við sjáum ítrekað dæmi um það að fólk sem vill búa hérna, vinna og starfa og vera með börnin sín í skóla hérna fær það ekki. Þær ákvarðanir styðjast við einhverja lagaumgjörð. Af hverju? Hvað er slæmt við það að fólk vilji búa hér og leggja sitt af mörkum? Hefur sú spurning einhvern tíma verið rædd? Er ekki sú spurning grundvöllur að einhvers konar innflytjendastefnu sem við þurfum að marka okkur? Ég held að það muni ráða úrslitum varðandi velmegun þjóðarinnar á 21. öldinni og velmegun margra þjóða hversu opnar þær eru gagnvart nýju fólki. Við sjáum dæmi um það að velmegunarþjóðir 20. aldarinnar (Forseti hringir.) voru mjög opnar og eru enn þá gagnvart nýju fólki. Af hverju skyldum við ekki vera það?