145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[15:52]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Stór hluti þeirra flóttamanna sem komu til Evrópu, t.d. frá Sýrlandi, eftir ýmsum leiðum er vel menntað fólk sem á peninga. Þetta er fólk sem hefur haft efni á að kaupa sér far yfir lönd í því skyni að komast til fyrirheitna landsins, hvort sem það er Þýskaland, Svíþjóð eða önnur lönd. Þeir fátæku sem eiga ekkert verða eftir í flóttamannabúðunum við landamæri Sýrlands. Það er mjög mikilvægt að hafa þetta í huga. Það er því alrangt að tala bara um kostnað við þá flóttamenn sem komið hafa til Evrópu. Lönd Evrópu hafa fengið mikilvægt og nauðsynlegt vinnuafl, oft við störf þar sem skortur hefur verið á fólki. Þetta er viðurkennt í þeim löndum sem tekið hafa á móti flestum flóttamönnum, t.d. Svíþjóð.

Það er í sjálfu sér engin ástæða til að ætla að annað verði upp á teningnum hérlendis þó að auðvitað sé það jafn ljóst að kostnaður við móttöku og aðlögun flóttamanna getur verið mikill. Það er kostnaður sem ekki verður talinn í mánuðum heldur árum. Það væri auðvitað forvitnilegt að leggjast yfir útreikninga til að finna út hvað hver flóttamaður leggur til þjóðfélagsins í krónum og aurum (Forseti hringir.) en hætt er við að slík talnaleikfimi yrði afstæð í besta falli.