145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[15:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er sumpart vandasöm umræða um leið og hún er þörf og skiljanleg, að ræða efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna eða innflytjenda yfirleitt. Það er mikilvægt að halda því alltaf til haga að andlagið eða grundvöllur umræðunnar þegar kemur að afstöðu til flóttamanna og hælisleitenda er hin mannúðlegu sjónarmið, þ.e. að rétta meðbræðrum í vanda hjálpandi hönd, en um leið er ekkert að því að menn greini hin efnahagslegu áhrif af komu vinnufúsra handa hingað til Íslands. Við þurfum ekki að fara vestur til Manitóba þó að í sjálfu sér sé ágætt að skreppa þangað. Saga Íslands er eitt æpandi dæmi um þetta. Löngu fyrir daga Pólverja, sem komu hingað og eru hér þúsundum saman og fylla í skörðin í fiskvinnslu, byggingariðnaði og víðar, byggði Ísland á uppgangstímabilum á færeysku vinnuafli eða skólafólki frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Hér eru á hverju hausti slátrarar og fláningsmenn frá Nýja-Sjálandi, svo dæmi sé tekið. Þeim mun undarlegri er sú umræða sem stundum kemur upp að menn eigi að líta (Forseti hringir.) á þetta sem sérstakt vandamál.

Ég tek að lokum undir það að þörf okkar (Forseti hringir.) fyrir einmitt þetta mun fara vaxandi á komandi árum með breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar.