145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[16:06]
Horfa

Sigurjón Kjærnested (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa góðu umræðu og fagna henni. Ég tek algerlega undir það sem fram hefur komið, að efnahagsleg áhrif á komu flóttamanna og innflytjenda almennt eru gríðarlega jákvæð. Ég starfa að hluta til sem formaður innflytjendaráðs í velferðarráðuneytinu. Á þeim vettvangi hefur þetta verið rætt og skoðað og allar þær rannsóknir, hver ein og einasta sem ég hef séð sem fjallar um þetta, sýna fram á það og staðfesta hversu jákvæð áhrifin eru.

Eitt dæmi þar um er nýsköpun. Tíðni stofnunar nýrra fyrirtækja og nýsköpunar almennt hjá innflytjendum er upp úr þakinu. Hún er ekki bara tvöfalt meiri, hún er margfalt meiri. Þess vegna er það gríðarlega jákvætt.

Mig langar að taka upp það sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir kom inn á varðandi innflytjendastefnu flokkanna. Vissulega þurfa flokkarnir að standa sig betur í að móta innflytjendastefnu, en þeir þurfa líka að standa sig betur í því að tryggja að fulltrúar þeirra endurspegli lýðfræðilega samsetningu (Forseti hringir.) samfélagsins. Ef innflytjendur á þingi væru jafn margir og hlutfall þeirra af þjóðinni er núna, fyrsta og önnur kynslóð, þá væru hér í salnum sex innflytjendur. Ég sé þá ekki. Flokkarnir þurfa því að standa sig mun betur í þessu líka. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)