145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif af komu flóttamanna.

196. mál
[16:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Þetta hefur verið fín umræða og er sjálfsagt og eðlilegt að ræða málefni flóttamanna/innflytjenda út frá þessu efnahagslega sjónarhorni. Við skulum ekki gleyma því, og ég held reyndar að það hafi komið fram í umræðunni, að við erum með galopin landamærin gagnvart innri markaðnum. Það eru ekki færri en 500 millj. manna sem geta á grundvelli sameiginlegra reglna EES-svæðisins flutt búferlum hingað tiltölulega vandræðalaust.

Umræðan að undanförnu hefur fyrst og fremst snúið að þeim sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þar þarf að gera greinarmun á fólki sem leitast eftir því að koma hingað einfaldlega vegna starfa, í tengslum við vinnutilboð eða annað þess háttar, þeim sem sækjast eftir því að komast hingað og fá pólitískt hæli og svo kvótaflóttamönnum, sem er einn anginn af þessu sem stjórnvöld hafa meiri stjórn á.

Ég ætla í tengslum við þessa umræðu að leyfa mér að nefna það hér undir lokin að við megum aldrei missa sjónar á því að til eru svartir sauðir sem reyna að nýta sér opnar glufur í kerfum alheimsins. Við höfum fundið fyrir því á Íslandi þar sem eru glæpahringir sem til dæmis reyna að stunda mansal í skjóli reglna sem bjóða upp á einhverja misbeitingu. Við þurfum ávallt að vera vakandi yfir því en vakt okkar yfir þeim þætti málsins má ekki verða til að skemma ávinninginn af því að fá hingað fólk sem er tilbúið til að skjóta rótum hér, hefja nýtt líf, koma hingað og starfa. Það er vandasamt verk að finna gott jafnvægi í þessu og eflaust eru til dæmi um það að okkur hafi mistekist í því en við þurfum að halda áfram að slípa það regluverk til.