145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

skattar og gjöld á vistvæn ökutæki og eldsneyti.

221. mál
[16:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var aðeins rætt áðan í óundirbúnum fyrirspurnum, þar sem málshefjandi var hv. þm. Róbert Marshall, um mikilvægi þess að við værum með öfluga áætlun hér um það með hvaða hætti við ætluðum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Einn stór þáttur í því, þar sem við höfum tækifæri, er samgöngur. Við eigum þar gríðarlega mikið verk óunnið. Við höfum ekki náð þeim árangri sem við ættum að geta náð miðað við aðgengi hér að grænni orku fyrir ökutæki. Því telja mörg okkar að grípa þurfi til sérstakra aðgerða, ívilnandi aðgerða, og til lengri tíma en gert hefur verið til þess að reyna að ná árangri.

Þess vegna gladdi það mig þegar hæstv. ráðherra flutti hér ræðu um bandorminn svokallaða, þ.e. fylgifrumvarp fjárlagafrumvarpsins, þar sem hann tók þessi mál sérstaklega fyrir sem sjötta lið í ræðu sinni þar sem hann fjallaði um niðurfellingu undanþágu virðisaukaskatts við innflutning og skattskylda sölu rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða þar sem verið var að framlengja þá tímabundnu heimild að fella niður virðisaukaskatt á þess háttar ökutæki um eitt ár. Það er kannski vandinn að við erum alltaf að velta þessu áfram um eitt ár þannig að fyrirsjáanleikinn til lengri tíma er enginn. Þegar verið er að taka ákvörðun um að fella niður virðisaukaskatt á þessum ökutækjum til eins árs í senn er að mínu viti of lítill fyrirsjáanleiki og ekki nægjanleg langtímasýn.

Það gladdi mig líka þegar hæstv. ráðherra nefndi það síðan í lok þessa kafla í ræðu sinni að fyrirhugað væri að setja á laggirnar starfshóp til þess að fjalla um þessi mál heildstætt. Ég held að það skipti einmitt máli núna að við horfum bæði til orkugjafanna, sömuleiðis til ökutækjanna og horfum heildstætt á þessa mynd. Þess vegna fagna ég því að boðað hafi verið að þessi starfshópur taki til starfa og spyr því hér í þessum fyrirspurnatíma hvað líði stofnun þessa starfshóps og hvernig hann er eða verði samansettur og hverjir komi að honum vegna þess að ég ber miklar væntingar til hans.

Ég er nefnilega þeirrar skoðunar og hef farið fyrir hópi þingmanna Samfylkingarinnar sem hafa ítrekað lagt fram mál í þinginu þess efnis að við búum til ákveðið skattfrelsistímabil gjalda á þessum bifreiðum og orkugjöfum þar til við höfum náð 10% bílaflotans grænum. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé leið sem við (Forseti hringir.) eigum að geta skoðað. Hæstv. ráðherra nefndi þá leið einmitt líka sem möguleika í ræðu sinni af því að Norðmenn hafa gert þetta (Forseti hringir.) og því hlakka ég til að heyra svör hans.