145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

skattar og gjöld á vistvæn ökutæki og eldsneyti.

221. mál
[16:29]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir það sem ég hef fengið að heyra hérna. Mig langaði aðeins að koma inn á þann punkt — vegna þess að ég hjó eftir því í ummælum hæstv. ráðherra, eðlilega kannski vegna þess að spurningin beinist að ákveðnum sköttum og gjöldum — að mér finnst að halda þurfi því til haga, í þessari umræðu allri, hversu mikilvægt er að hið opinbera, hvar sem er í heiminum, leggi til fjármuni í þróun og tækniþróun á þessu sviði. Þar hafa stærstu sigrarnir unnist á þessu sviði.

Ég tek að einhverju leyti undir sjónarmið síðasta ræðumanns um neyslustýringu. Ég er ekkert ofsalega hrifin af henni þó að í þessu tilliti hafi það sýnt sig að það hafi skipt verulegum sköpum en í hendur við það þurfa að haldast fjármunir í þróun á tækni. Þar getum við virkilega skorið úr um eitthvað sem við vitum ekki einu sinni að er til núna, sem mun fleyta okkur miklu lengra. Ég vildi bara koma þessum punkti að.