145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

skattar og gjöld á vistvæn ökutæki og eldsneyti.

221. mál
[16:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er mikilvæg. Það sem mér finnst að við ættum að vera að fókusera á — þó að mér finnist fyrirspurnin góðra gjalda verð — er að nota skatta og gjöld til að draga úr því sem við teljum vera mjög óæskilegt. Það er mjög eðlileg leið og það er auðvitað hér í þessum sal og á vettvangi stjórnmálanna sem við ákveðum hvers lags samfélagi við viljum búa í og í hvaða átt við viljum fara.

Við ættum að ganga enn lengra, við ættum að sjá fram á starfshóp sem væri að velta fyrir sér og kortleggja möguleikana á algjörum orkuskiptum í landinu, að við værum að fara úr því að nota jarðefnaeldsneyti. Auðvitað er það þannig nú þegar að það er hagkvæmt fyrir hvern og einn. Þeir sem þekkja til í þessum bransa segja mér að það sé gerlegt þegar kemur að bílaflotanum á Íslandi í dag að nota vistvæna orkugjafa. Það er lengra í land þegar horft er til skipaflotans en það er hins vegar markmið sem við ættum að reyna að kortleggja og reyna að sjá fyrir okkur hversu raunhæft er að ná.