145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

skattar og gjöld á vistvæn ökutæki og eldsneyti.

221. mál
[16:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Önnur ríki hafa farið þá leið að setja sér tölusett markmið um hlutfall rafbíla í bílaflotanum og hafa miðað ívilnanir við það tímabil sem tekur að ná þeim tölusettu markmiðum. Mér finnst það alveg koma til álita, við hljótum að skoða hvort við gerum það þannig.

Hið undirliggjandi vandamál hér er ekki viljaleysi íslenskra neytenda til að kaupa rafbílana, heldur að framleiðslukostnaðurinn er enn allt of hár. Þess vegna standast rafbílarnir ekki samkeppni í verði við hina hefðbundnu bíla, hvort sem er dísil- eða bensínbíla. Þetta er smám saman að breytast. Eins líka er drægni bílanna að aukast, þ.e. bílar sem áður gátu komist sína 15–20 kílómetra eru í dag farnir að ná 40–60 kílómetrum. Margir bílar sem eru seldir á Íslandi mundu duga til að sinna öllum almennum heimilisþörfum án þess að þurfa aftur endurhleðslu.

Frá því að ég kom í ráðuneytið hef ég fengið nokkrar ábendingar um að það sé ýmislegt í tollalöggjöfinni sem við þurfum að taka til endurskoðunar. Við erum til dæmis með mjög mikla ívilnun fyrir vörubíla. Ef ég man rétt eru þeir í 13% tollflokki og í ákveðinni stærð fara þeir niður í 0%; ég er að tala um vörugjöldin, 13% eða 0% vörugjöld. Á sama tíma liggur fyrir að þetta eru mjög stór, mengandi og eyðslufrek ökutæki.

Það má alveg velta því fyrir sér: Er það skynsamlegt, er það í samræmi við heildarstefnumörkun okkar, að vera með svona mikla ívilnun á þessu sviði á sama tíma og við erum með minni bíla, sem menga jafnvel minna en kosta töluvert í innkaupum í 65% vöruflokki? (Forseti hringir.) Mér finnst kerfið heilt yfir vera aðeins of flókið, of mörg þrep í því, en það er í mörg horn að líta, eins og komið hefur fram í þessari umræðu, og greinilegt að við erum sammála um að það er tímabært að fara yfir þessi mál.