145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

háskólarnir í Norðvestur kjördæmi.

201. mál
[16:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég lagði inn fyrirspurn á síðasta þingi um niðurstöðu nefndar sem ætlað var að skoða fjárhagslegan og faglegan ávinning af aukinni samvinnu eða samrekstri háskólanna í Norðvesturkjördæmi, þ.e. Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Háskólans á Bifröst. Sett var á laggirnar nefnd sem átti að skoða þetta og skila niðurstöðum í vor. Ég fékk þau svör í vor að hún mundi skila síðsumars og nú er komið ansi langt fram í október þannig að ég reikna með því að nefndin hafi skilað niðurstöðum sínum eða sé í það minnsta á lokametrunum. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra um stöðu þessarar vinnu og hverjar niðurstöður nefndarinnar væru.

Til upprifjunar hefur sú hugmynd verið til skoðunar að sameina þessar þrjár háskólastofnanir. Við hæstv. ráðherra höfum áður átt ákveðin orðaskipti um þau mál og ég vil nota tækifærið hér til að leggja áherslu á að það er mjög mikilvægt þegar við skoðum stofnanakerfið á sviði rannsókna,- vísinda- og háskólamenntunar að það sé gert með faglegan ávinning að leiðarljósi. Ég hef sem sagt spurt hæstv. ráðherra áður og velt því fyrir mér hvort þau sjónarmið séu höfð að leiðarljósi, í ljósi þess að hér er líka verið að horfa á sameiningu háskóla innan eins kjördæmis. Bara svo við tölum mannamál þá er það auðvitað svo að þegar sameiningar háskóla hafa verið til umræðu hefur yfirleitt verið mjög erfitt að fara yfir kjördæmamörk vegna áhyggna manna yfir að missa starfsemi úr tilteknum kjördæmum yfir í önnur kjördæmi. Það er ekki laust við að mann renni í grun þegar horft er á sameiningu þriggja háskóla, þar af tveggja skóla sem starfa á tengdum sviðum, þ.e. á fagsviði landbúnaðar, og hins vegar þess þriðja sem starfar á sviði félagsvísinda og hugvísinda, laga, viðskiptafræði og félagsvísinda að fremur sé verið að horfa á kjördæmamörkin en hinn faglega ávinning.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra, bara svo við getum talað hér á mannamáli, hvort það séu kjördæmamörkin fyrst og fremst sem hafa ráðið för við að ráðast í skoðun á þessari sameiningu. Ég vil líka spyrja hvort nefndin hafi skilað, ef ekki hvort það sé von á niðurstöðum og hvert hæstv. ráðherra stefni í þessum málum, hvort það ríki eining meðal þessara þriggja háskóla um það hvert eigi að stefna í þessum málum í ljósi þess að þeir starfa á mjög svo ólíkum fagsviðum.