145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

háskólarnir í Norðvesturkjördæmi.

201. mál
[16:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og segja það fyrst að það er hárrétt sem hv. þingmaður vekur hér athygli á að starfshópur sem skipaður var þann 27. febrúar síðastliðinn var í upphafi settur til þriggja mánaða. Það hefur dregist nokkuð að fá niðurstöðu í þetta mál enda kannski eitt af þeim málum sem er þannig vaxið að eftir því sem dýpra er farið ofan í þau þá eykst flækjustigið. Ég get sagt hv. þingmanni að ég átti samtöl í dag við forustumenn þessa hóps og mér er tjáð að niðurstaða muni koma innan skamms, vinnan sé algjörlega á lokametrunum. Ég held að það sé kannski ekki ástæða til að tjá mig neitt frekar um starf hópsins, niðurstöðurnar munu tala sínu máli þegar þær birtast. Svo það sé tekið fram þá hafa mér ekki verið sýndar neinar bráðabirgðaniðurstöður þar að lútandi.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður vekur hér máls á sem snýr að hinum faglega þætti þegar um er að ræða sameiningu eða samstarf háskólastofnana. Skemmst er að minnast þess að hér fór fram nokkur umræða um þá möguleika að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri mundi sameinast Háskóla Íslands. Fyrir því voru vissulega sterk fagleg rök. Aftur á móti varð mikil andstaða við þá hugmynd, einkum og sér í lagi í Borgarfirði. Það er nauðsynlegt að horfa einnig til slíkra sjónarmiða þegar kemur að skólastarfsemi og rannsóknastarfsemi úti á landi. Menn verða að hafa í huga að þessar stofnanir hafa tvíþætt hlutverk. Þær hafa mikilvægt mennta- og rannsóknarhlutverk en þær gegna einnig hlutverki sem máttarstólpar í þeim byggðum þar sem þær eru staðsettar og tel ég óráðlegt að horfa fram hjá því. Aftur á móti, þegar leitast var við það að ná sameiningu Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólans á Bifröst, var reynt að búa þannig um hnútana að starfsemin á Bifröst mundi eflast, þangað yrðu flutt störf og verulegir fjármunir látnir fylgja þessu verkefni og það yrði frekar aukið í en dregið úr starfseminni heima í héraði, ef svo má að orði komast. En því miður náðu þau mál ekki fram að ganga.

Ég tel aftur á móti í ljósi þeirrar stöðu sem þessar skólastofnanir eru í, sem eru örstofnanir, þegar horft er til þeirra laga og þeirra skyldna sem hvíla á háskólastofnunum sem eru útskýrð í háskólalögunum að augljóst megi vera að vegna nemendafæðar eigi þessar stofnanir mjög erfitt með að fullnægja öllum þeim ákvæðum, miserfitt reyndar. Ég verð að segja þeim sem eru í forustu fyrir þessum stofnunum til hróss að þar hafa verið unnin mjög góð störf þrátt fyrir þær áskoranir sem fylgja stærðinni. En þá ber okkur skylda til þess að leita annarra leiða sem eru pólitískt færar, en um leið mæta þeim skilgreiningum eða þeim faglegu viðmiðum sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, að tveir af þeim þremur skólum sem eru í þessu tiltekna kjördæmi eru starfandi á sviði landbúnaðar og það gefur augaleið að það hlýtur að vera hægt að skoða mjög vel hvernig þeir tveir skólar geta unnið saman. Hvað varðar þriðja skólann, Háskólann á Bifröst, er þar auðvitað lögð meiri áhersla á félagsvísindin. Rektor skólans hefur sjálfur reyndar talað fyrir því að það sé nauðsynlegt að byggja þar upp fræðasvið varðandi matvælaframleiðslu. Ég held að það megi sjá fyrir sér mjög spennandi námsbrautir þar sem þættaðar eru saman annars vegar áherslur í landbúnaðarháskólunum sem snúa að vísindagreinunum þar, líka hvað varðar nám bændanna sjálfra, og síðan þau fög sem boðið er upp á uppi á Bifröst, t.d. í lögfræði og viðskiptafræði og öðrum slíkum fögum sem geta nýst mjög vel fyrir þá sem ætla að starfa að landbúnaði.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að forustumenn þeirrar nefndar sem hv. þingmaður gat um í upphafi máls síns hafa tjáð mér að þeir munu skila niðurstöðum innan mjög skamms tíma, það sé spurning um nokkra daga hvenær nefndin skilar af sér.