145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

háskólarnir í Norðvesturkjördæmi.

201. mál
[17:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmönnum athugasemdir og hæstv. ráðherra svörin. Hæstv. ráðherra sagði að því dýpra sem farið væri í þetta mál því meira yrði flækjustigið. Því get ég vissulega trúað eftir að hafa sjálf komið eilítið nálægt þessum málum á minni stuttu ævi, því að háskólar eru flóknar stofnanir. Hæstv. ráðherra nefndi hér byggðasjónarmið. Vissulega þurfa þau að vera fyrir hendi, en þó er það sannfæring mín að þegar við tökum ákvarðanir um framtíð háskólastarfs þurfa akademísku rökin alltaf að vera þar yfirskipuð öðrum rökum. Það má tryggja byggðasjónarmiðin með öðrum hætti, en byggðum landsins er enginn greiði gerður með því að fara einhverjar hjáleiðir í akademískum málum. Það verða að vera sömu kröfur. Þannig vilja forsvarsmenn þessara skóla líka hafa það, það er þeirra metnaðarmál. Það er okkar metnaðarmál sem hér störfum að starfið sé fyrsta flokks hvar sem það er unnið.

Hæstv. ráðherra nefndi samlegðaráhrif Landbúnaðarháskóla Íslands annars vegar og Hólaskóla hins vegar við Háskóla Íslands sem rætt hefur verið og skoðað á fyrri stigum. Það mætti andstöðu í héraði, en það má eigi að síður leysa byggðamálin svo fremi sem yfirvöld menntamála eru ánægð með þau akademísku sjónarmið sem liggja að baki. Það sjáum við til dæmis í fræðasetrunum sem eru úti um allt land, rekin af Háskóla Íslands og njóta sérstakrar fjárveitingar á fjárlögum til að tryggja stöðu þeirra fjárhagslega þannig að þau verði ekki undir í baráttunni um fjármagnið innan hinnar stóru stofnunar í Reykjavík. Ég hef mikinn skilning á því að það skipti máli fyrir byggðir landsins að þar sé rekið öflugt rannsókna- og þekkingarstarf.

En mér finnst hins vegar mikilvægt að við ákvarðanatöku um þessi mál sé rökunum raðað í þessa röð, því að ég tel að ef akademísku rökin eru fyrst megi leysa hitt (Forseti hringir.) málið, þ.e. hvernig við tryggjum síðan hið öfluga starf í byggðum landsins. (Forseti hringir.) Ég vil fyrst og fremst heyra viðhorf ráðherra til þess í seinna andsvari, en ég hefði þó getað talað hér lengi enn um þetta mál.