145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

Tónlistarsafn Íslands.

202. mál
[17:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil vekja athygli á merkilegu safni í Kópavogi sem ber nafnið Tónlistarsafn Íslands. Það hefur verið rekið af bæjarfélaginu Kópavogi, með styrk frá ríkinu, í allmörg ár og byggir á sama líkani og ýmis önnur söfn. Ég get nefnt Hönnunarsafnið í Garðabæ, sem er rekið með sama hætti, þar sem gerðir hafa verið samningar um stuðning ríkisins við það að efla söfn sem hafi eigi að síður miðlægu hlutverki að gegna þegar kemur að menningararfinum.

Safnaumhverfið sem við búum við er einhvern veginn þannig að ríkið rekur hér svokölluð höfuðsöfn, þó með mjög mismunandi hætti — Þjóðminjasafnið, Listasafnið og blessað Náttúruminjasafnið, sem alltaf er hornkerling í þessu samhengi — en síðan kemur ríkið að rekstri safna í gegnum safnasjóð og svo með sérstökum samningum.

Ástæða þess að ég spyr sérstaklega um þetta er í fyrsta lagi sú að verksvið Tónlistarsafns Íslands skarast við ýmsar aðrar stofnanir. Ég get nefnt sem dæmi Árnastofnun sem heldur utan um allmikið safn af menningararfi á sviði tónlistar, ég er þá að vitna í handrit, og hefur líka verið í miklu samstarfi við Tónlistarsafn Íslands.

Ég vil líka nefna safn Ríkisútvarpsins en hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir, ef mig brestur ekki minni, að það þurfi að efla sérstaklega, þ.e. safnadeild Ríkisútvarpsins og þann menningararf sem við geymum þar á ýmsum sviðum og þar á meðal á sviði tónlistar.

Í ljósi þess að við ræðum hér samlegð og samstarf ólíkra stofnana langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í framtíðarsýn hans hvað varðar Tónlistarsafnið, en kannski þarf sú framtíðarsýn að vera byggð á aðeins breiðari grunni. Í raun og veru er það það sem vekur kannski umræður hér á Alþingi að við erum með söfn sem gegna mjög miðlægu hlutverki fyrir menningararfinn en eru rekin með þessum tiltekna hætti. Mér finnst áhugavert að vita hvort hæstv. ráðherra telji að þetta fyrirkomulag hafi gengið vel upp, þ.e. að einstök sveitarfélög reki söfn sem hafi miðlægt hlutverk með styrk frá ríkinu. Í ljósi þess að þetta er ekki mjög gamalt fyrirkomulag — ákveðið líkan fór af stað á árunum fyrir hrun, að hafa framkvæmdina með þessum hætti, og byggði þá á áhuga sveitarfélaganna á því að koma að rekstri safna — spyr ég hvort ráðherra telji að þetta gangi vel og hvort við eigum að halda áfram á þessu spori.

Mér finnst áhugavert að heyra sýn hæstv. ráðherra á það í ljósi þess að það er mjög mikilvægt að tryggja þennan menningararf eins og annan. Ég tek raunar Tónlistarsafnið hér sem dæmi af því að ég hef sérstakan áhuga á því viðfangsefni. Það þarf auðvitað að vinna mjög mikið með öðrum söfnum á sama sviði. Ég hef (Forseti hringir.) nefnt hér tvö og það kann vel að vera að hæstv. ráðherra geti nefnt fleiri.

Mig langaði að vekja máls á þessu, (Forseti hringir.) bæði hinu almenna fyrirkomulagi þegar um er að ræða menningararf sem er mjög miðlægur og á í raun við um allt landið.