145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

Tónlistarsafn Íslands.

202. mál
[17:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt að rifja það upp að Tónlistarsafn Íslands var stofnað af Kópavogsbæ með stofnskrá samþykktri í bæjarráði Kópavogs þann 5. október 2006 og með samningi sem undirritaður var 23. janúar 2009 af þáverandi menntamálaráðherra og staðfestur af fjármálaráðherra. Þá var ákveðið að menntamálaráðuneytið mundi styrkja rekstur þess með árlegu framlagi. Aðalatriðið er að Tónlistarsafnið er í eigu Kópavogsbæjar og rekið af bæjarfélaginu með stuðningi ráðuneytisins.

Safninu er ætlað að sinna víðtækum verkefnum á sínu sviði, m.a. að skrá og miðla hvers kyns upplýsingum og munum sem tengjast tónlist á Íslandi frá upphafi, svo sem hljóðfærum, hljómtækjum o.s.frv. Því er ætlað að hafa frumkvæði og stunda rannsóknir á sögu íslenskrar tónlistar og tónminja í samstarfi við fræðimenn á þessu sviði og skapa þeim jafnframt aðstöðu til vinnu sinnar eftir því sem kostur er. Það skal leitast við að vera leiðandi og ráðgefandi í vörslu hljóðritunar á íslensku efni, bæði útgefnu sem og hljóðritana í eigu stofnana og einstaklinga o.s.frv. Af þessu má ljóst vera að hér er um nokkuð víðfeðmt starfssvið að ræða sem fellur undir þetta safn.

Það er mitt mat að á undanförnum árum hafi Tónlistarsafninu tekist prýðilega að vinna að þessum verkefnum. Það er að sjálfsögðu von allra sem hafa áhuga á þeim málum, og ég deili þeim áhuga með hv. þingmanni, að svo verði áfram. Safnið hefur viðurkenningu á grundvelli safnalaga og á þeim grundvelli á það rétt á að sækja um styrki úr safnasjóði til ýmissa verkefna, en safnið hefur hlotið styrki samtals að upphæð rúmlega 4,5 millj. kr. til ýmissa verkefna á undanförnum árum.

Þrátt fyrir, og þetta er mikilvægt, virðulegur forseti, að sinna verðugum verkefnum gegnir safnið ekki lögbundnu hlutverki á þessu sviði. Það er til dæmis hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns að varðveita hljóðrit á ýmsu formi samkvæmt ákvæðum 6.–9. gr. laga um skylduskil til safna, nr. 20/2002. Það er hlutverk Þjóðminjasafns Íslands að stuðla að því að varðveita menningarminjar samkvæmt ákvæðum laga um safnið, nr. 140/2011. Tónlistarsafnið hefur þó vissulega átt gott samstarf við þessi og fleiri söfn um varðveislu efnis og muna sem tengjast tónlistarsögu Íslendinga. Vænta má að svo verði áfram. Vek ég einnig athygli á ummælum hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um samstarf þessa safns við Árnastofnun.

Það er von stjórnvalda og mín persónulega að Tónlistarsafn Íslands megi halda áfram að vinna ötullega að þeim verkefnum sem það hefur verið að sinna sem leiðandi safn á þessu sviði. Það er vonandi að stjórnvöld nái að styðja það starf áfram á verðugan hátt. Það er hins vegar tæpast viðeigandi að ég sem ráðherra lýsi með einhverjum hætti framtíðarsýn fyrir starfsemi safnsins, sem er ekki í eigu ríkisins, og er rétt að láta Kópavogsbæ, eiganda safnsins, eftir að móta stefnu fyrir starfsemi þess til framtíðar.

Ég vil þó segja að gefnu tilefni og vegna fyrirspurnar hv. þingmanns að það er sjálfsagt og allt að því sjálfgefið að leggja mat á og skoða árangurinn af þeirri stefnu og þeirri stefnumótun sem hefur verið hér að undanförnu varðandi einmitt samskipti safna við söfn sem eru í eigu sveitarfélaganna, hlutverk þeirra og hvernig þeim hefur gengið að uppfylla verkefni sín.

Þá kem ég að seinni spurningu hv. þingmanns sem er þessi, virðulegi forseti: Sér ráðherra fyrir sér aukið samstarf safna á þessu sviði? Svar mitt er að Tónlistarsafn Íslands hefur átt í góðu samstarfi við ýmis önnur söfn um varðveislu minja og efnis sem tengist tónlistarsögu Íslendinga, eins og áður var getið. Þar ber hæst samstarf safnsins við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Þjóðminjasafnið og safnadeild Ríkisútvarpsins, svo dæmi séu tekin.

Samstarf safna hefur aukist mikið á síðustu árum eins og sést til dæmis á menningarminjagrunninum sarpur.is sem er öllum aðgengilegur á vefnum. Þá er ljóst að með tilkomu verkefnastyrkja úr safnasjóði og þeim möguleika sem þar hefur verið opnaður með heimild til að styrkja sameiginleg verkefni safna megi vænta þess að samstarf safna eigi aðeins eftir að aukast þar sem þeim gefst kostur á að vinna saman að einstökum verkefnum á sviði tónlistararfsins.

Með vísan til sjálfstæðis safna er það eðli málsins samkvæmt í höndum forstöðumanna safnanna að hafa forgöngu um aukið samstarf á þessum sviðum. En það er ljóst að öll þróun í safnamálum hér á landi bendir í þá átt og má vænta þess að Tónlistarsafn Íslands verði virkur þátttakandi í slíku samstarfi hér eftir sem hingað til.