145. löggjafarþing — 22. fundur,  19. okt. 2015.

Tónlistarsafn Íslands.

202. mál
[17:19]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmanni svar og athugasemdir. Það vakna spurningar hjá mér og ég hef ekki svör við þeim sjálf. Við erum með ákveðið verkefni sem liggur mjög víða. Við erum með það hjá safni sem, eins og hæstv. ráðherra bendir á, er í eigu Kópavogsbæjar en hefur samt þessu miðlæga hlutverki að gegna og ber beinlínis nafnið Tónlistarsafn Íslands. Við erum með Landsbókasafn, Árnastofnun, Þjóðminjasafn og við erum með safn Ríkisútvarpsins, sem hæstv. ráðherra hefur væntanlega lagt til að fái 20 millj. kr. framlag í fjárlagafrumvarpinu fyrir þetta ár, þar sem sérstaklega er hugað að safnkostinum þar.

Ástæða þess að ég vek máls á þessu hér er sú að þetta er auðvitað gríðarlega mikilvægur menningararfur, menningararfur sem við Íslendingar höfum varla fyrr en á síðustu árum áttað okkur á, menningararfur sem við getum heyrt ýmislegt um í ágætum sjónvarpsþáttum á ríkissjónvarpinu en líka í góðum útvarpsþáttum á Rás 1.

Það væri áhugavert fyrir ráðuneyti menntamála að skoða hvort við séum að ná markmiðunum í því að varðveita þennan menningararf og miðla honum á sem bestan hátt þegar verkefnið liggur svona víða.

Nú er ég ekki að biðja hæstv. ráðherra að ganga inn á verksvið sveitarfélagsins Kópavogs sem hafði mikinn áhuga á þessu verkefni á sínum tíma. Það er mikilvægt að sprotarnir fái að blómstra úti um allt land í þessum efnum. Það eina sem ég velti hér upp, í mínu síðara innleggi, er hvernig við getum tryggt að þessi ábyrgð sé skýr. Það er heimild fyrir því í safnalögum að tilnefna tiltekin ábyrgðarsöfn á einstökum þáttum. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur skoðað það að sú heimild verði nýtt.

Ég held (Forseti hringir.) að þetta sé mjög mikilvæg umræða fyrir okkur þingmenn sem þurfum að kunna skil á umhverfi safnamála, þ.e. hvort við teljum okkur vera að ná markmiðinu með fullnægjandi hætti í núverandi fyrirkomulagi.