145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Samgöngur eru meðal annars heilbrigðismál, menntamál, velferðarmál, atvinnumál, umhverfismál, menningarmál og svona gætum við haldið áfram. Af sömu ástæðu eru almenningssamgöngur mikilvægar, liður í að tryggja félagslegt réttlæti um land allt og liður í þróun samfélaga, svo sem við uppbyggingu ferðaþjónustu. En hver er stefnan í þessum málum?

Á árinu 2012 hófst þróunarverkefni í almenningssamgöngum. Þingið samdi við landshlutasamtök sveitarfélaga um þróun þjónustu með tilteknum fjárstuðningi og að þau tækju um leið við tilteknum sérleyfum frá Vegagerðinni. Frá því að samningar voru gerðir hefur því miður orðið forsendubrestur, því að endurgreiðsla olíugjalds vegna almenningssamgangna hefur verið felld niður í skrefum og sérleyfi, einkaréttur til aksturs á tilteknum leiðum hefur ekki haldið fyrir dómstólum. Þetta hefur leitt til þess að landshlutasamtök sveitarfélaga hafa ýmist safnað skuldum vegna verkefnisins eða þróunin hefur stöðvast án þess að komið sé heildstætt kerfi. Þegar litið er til baka virðist ekki hafa verið ljóst í upphafi hvaða viðmið voru höfð til hliðsjónar hjá ríkinu við skiptingu fjármagns eða að skilgreind hafi verið lágmarkskrafa um þjónustu.

Skynsamlegt er að fela heimamönnum á hverju svæði umsjón með almenningssamgöngum á landi en við verðum samt að hafa heildarsýn á verkið. Á það til dæmis að vera forgangsmál að tengja saman samgöngur á landi, í lofti og á sjó, eða viljum við setja einhverjar lágmarkskröfur svo sem um að hægt sé að komast hringinn um landið með almenningssamgöngum sem ekki er hægt í dag? Er hægt að leita ódýrari lausna fyrir minni staði með því að samþætta við aðra þjónustu? Viljum við setja okkur einhver umhverfismarkmið? Til að þróa verkefnið áfram verðum við að minnsta kosti að setja okkur markmið, tryggja að lagaumhverfið styðji þjónustuna og setja ramma um útdeilingu fjármuna til verkefnisins í samræmi við markmiðin.


Efnisorð er vísa í ræðuna