145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Í ljósi frétta af málefnum flóttamanna og hælisleitenda síðustu daga finn ég mig knúna til að ræða Útlendingastofnun á þessum vettvangi.

Í gær birtist frétt á vísir.is þar sem segir, með leyfi forseta:

„Forstjóri Útlendingastofnunar segir að úrskurðir um að veita annars vegar albanskri og hins vegar sýrlenskri fjölskyldu ekki hæli hér á landi verði ekki endurskoðaðir. Ekki sé forsenda til að endurskoða ákvarðanir sem byggja á lögum sem Alþingi setur.“

Þetta verður að teljast undarleg staðhæfing. Nú er vel þekkt að úrskurðir Útlendingastofnunar séu kærðir og fyrstu niðurstöðum hennar um synjun á hæli breytt. Hæstv. innanríkisráðherra hefur sagt héðan úr ræðustól Alþingis að ekki sé tryggt að senda flóttamenn aftur til Grikklands og hún er ótrúlega smásmuguleg, sú túlkun Útlendingastofnunar að bera því við að vegna þess að sýrlenska fjölskyldan sé komin með hæli á Grikklandi sé í lagi að senda hana þangað aftur. Við vitum öll hvernig ástandið er á Grikklandi núna.

Þá hefur formaður allsherjarnefndar, hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, ekki sagst trúa öðru en að málið verði skoðað sérstaklega. Sú spurning vaknar hvort Útlendingastofnun sé hreinlega vísvitandi að ögra hæstv. ráðherra og kjörnum fulltrúum og reyna einhvern veginn að sýna fram á að hún ráði í þessu efni.

Ég tel fulla ástæðu til þess að þingið staldri við þessar furðulegu staðhæfingar forstjóra Útlendingastofnunar og skoði hvort ekki sé nauðsynlegt að stokka stofnunina rækilega upp og breyta þeim vinnubrögðum sem þar eru viðhöfð.


Efnisorð er vísa í ræðuna