145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Sandra Dís Hafþórsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina umræðunni aðeins frá stöðugleikaskatti og bankamálum og koma að öðru mikilvægu máli sem er hjúkrunarrými. Þörfin fyrir þau hefur aukist gríðarlega undanfarin ár enda hækkar meðalaldur þjóðarinnar hratt eins og við vitum öll. Því er mikilvægt að bregðast við því sem fyrst og nú þegar hafa reyndar verið reist hjúkrunarheimili víða um land, en þörfin er enn mikil og hún er mest í Árnessýslu og á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt þeim tölum sem ég fékk frá færni- og heilsumatsnefnd fyrir helgi eru 18 einstaklingar í bið eftir hjúkrunarrýmum í Árnessýslu, tveir eru í bið eftir dvalarrýmum og 29 einstaklingar bíða eftir hvíldarrýmum. Krafan um rými er því mikil.

Það sem vekur kannski helst athygli í þessum tölum er mikill fjöldi einstaklinga sem bíður eftir að komast í hvíldarinnlögn. Í Árnessýslu eru einungis skilgreind fimm hvíldarinnlagnarrými og eru þau einungis sjö í öllu heilbrigðisumdæminu og þar af er ekkert endurhæfingarhvíldarrými.

Vart þarf að nefna að hjúkrunarrými eru dýrt úrræði og því er mikilvægt að leita allra leiða til að bæta stoðþjónustu sem getur hjálpað fólki við að búa lengur heima og spara fyrir samfélagið, fyrir utan það að fólki líður náttúrlega mun betur heima hjá sér en á stofnunum. Því þarf að skoða að stórefla heimahjúkrun í þéttbýliskjörnum og styðja og hvetja sveitarfélög til að bjóða upp á félagslega heimaþjónustu á kvöldin og um helgar.

Nauðsynlegt er að fjölga hvíldarrýmum og bjóða upp á endurhæfingarhvíldarrými. Ég tel að með því gætum við dregið verulega úr vaxandi þörf fyrir hjúkrunarrými um allt land.


Efnisorð er vísa í ræðuna