145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Þann 18. janúar 2012 var samþykkt á Alþingi þingsályktun um staðgöngumæðrun. Alþingi ályktaði þar að fela velferðarráðherra að skipa starfshóp til að undirbúa frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Það frumvarp sem hér er lagt fram er samið af starfshópi sem skipaður var í september 2012 í samræmi við áðurnefnda þingsályktun. Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga þá.

Við undirbúning frumvarpsins leitaðist starfshópurinn við að raungera markmið Alþingis eins og þau birtast í þingsályktuninni og lögskýringargögnum hennar ásamt því að fella staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem best að íslensku lagaumhverfi. Starfshópurinn viðaði að sér gögnum og upplýsingum víðs vegar að, fékk gesti á sinn fund og stóð fyrir fundi norrænna sérfræðinga um staðgöngumæðrun meðal annars. Starfshópurinn kynnti frumvarpsdrögin á fundum með hagsmunaaðilum og fyrir velferðarnefnd Alþingis. Hann stóð einnig fyrir opnu umsagnarferli að beiðni minni í lok ársins 2014. Þá var einnig flutt munnleg skýrsla um málið á Alþingi í janúar á síðasta ári.

Markmið frumvarpsins er að stuðla að vandaðri framkvæmd staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni til að tryggja hag og réttindi barns sem fæðist eftir staðgöngumæðrun, rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og farsæla aðkomu væntanlegra foreldra.

Samkvæmt frumvarpinu er það staðgöngumæðrun þegar tæknifrjóvgun er framkvæmd á staðgöngumóður sem hefur fallist á að ganga með barn fyrir tiltekna væntanlega foreldra enda hyggist staðgöngumóðirin afhenda barnið væntanlegum foreldrum eftir fæðingu þess og hinir væntanlegu foreldrar hafa skuldbundið sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu. Lagt er til að sett verði á fót sérstök nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem hefur það hlutverk að veita leyfi til staðgöngumæðrunar. Samkvæmt frumvarpinu má ekki veita leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni nema sýnt þyki eftir könnun á högum og aðstæðum staðgöngumóður og maka hennar og væntanlegra foreldra að andleg og líkamleg heilsa, fjárhagsstaða og félagslegar aðstæður þeirra allra séu góðar og að ætli megi að barnið sem verður til muni búa við þroskavænleg skilyrði.

Nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hefur það hlutverk að meta hvort hagsmunir barns verði tryggðir og öllum skilyrðum staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni sé fullnægt. Nefndin hefur einnig það hlutverk að sjá til þess að þeir sem sækja um staðgöngumæðrun eigi aðgang að faglegri ráðgjöf sérfræðinga, svo sem lögfræðinga og félagsráðgjafa eða sálfræðinga, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að umsækjendum verði skylt að sækja ráðgjöf áður en leyfi til staðgöngumæðrunar er veitt þar sem veittar verða meðal annars ítarlegar upplýsingar um þau læknisfræðilegu, siðfræðilegu og félagslegu áhrif sem staðgöngumæðrun kann að hafa. Nefndin hefur einnig það hlutverk að ákvarða foreldrastöðu barns sem fæðist í samræmi við erlend lög um staðgöngumæðrun.

Gert er ráð fyrir því að þegar til stendur að koma eða komið er með barn hingað til lands sem fætt er samkvæmt erlendum lögum um staðgöngumæðrun verði máli vísað til nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til ákvörðunar um foreldrastöðu.

Í frumvarpinu eru sett fram ákveðin skilyrði sem staðgöngumóðir og maki hennar og hinir væntanlegu foreldrar þurfa að uppfylla til að geta fengið leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni. Skilyrði varðandi staðgöngumóður og eftir atvikum maka hennar eru að staðgöngumóðir og maki hennar séu lögráða og fyrir liggi samþykki þeirra, staðgöngumóðir eigi lögheimili og hafi haft samfellda, löglega ára dvöl hér á landi síðustu fimm ár fyrir umsókn og hafi búsetuleyfi eða aðra heimild til varanlegrar dvalar. Staðgöngumóðir þarf að hafa andlega og líkamlega burði og fullnægjandi heilsu til að takast á við það álag sem fylgir staðgöngumæðrun, meðgöngu og fæðingu barns. Hún skal vera á aldrinum 25–39 ára, eiga að baki eðlilega meðgöngu og fæðingu að minnsta kosti eins barns og að liðin séu að lágmarki tvö ár frá fæðingu þess. Staðgöngumóðir og maki hennar mega ekki vera systir eða bróðir eða skyld í beinan legg því væntanlega foreldri sem leggur til kynfrumuna. Hafi staðgöngumóðir eða maki hennar misst barn skulu hafa liðið að lágmarki tvö ár frá andláti barnsins.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að væntanlegir foreldrar séu hjón eða einstaklingar í sambúð með að minnsta kosti þriggja ára sambúð að baki. Væntanlegir foreldrar þurfa að vera lögráða, eiga lögheimili á Íslandi og hafa haft samfellda löglega dvöl hér á landi síðustu fimm árin fyrir umsókn. Skilyrði er að þeir hafi búsetuleyfi eða aðra heimild til varanlegrar dvalar. Fyrir skal liggja samþykki og skuldbinding um að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu, væntanlegir foreldrar skulu vera á aldrinum 25–45 ára og eiga ekki barn undir tveggja ára aldri. Þá er það einnig skilyrði að væntanlegir foreldrar geti ekki af læknisfræðilegum ástæðum tekist á við það álag sem fylgir meðgöngu og fæðingu barns eða að líffræðilegar ástæður útiloki meðgöngu. Einhleypir geti fengið leyfi til staðgöngumæðrunar ef sérstaklega stendur á og ótvírætt þyki að hagsmunir barnsins verði tryggðir og læknisfræðilegar eða líffræðilegar ástæður útiloki meðgöngu.

Í frumvarpinu er gengið út frá þeirri grunnskilgreiningu að sú kona sem elur barn telst móðir þess og er það í samræmi við vilja Alþingis að hrófla ekki við grunnskilgreiningu laga um móðurhugtakið eins og fram kemur í lögskýringargögnum með þingsályktun um staðgöngumæðrun.

Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að staðgöngumóðir verði móðir barns og maki hennar faðir eða foreldri barns frá fæðingu þess og þar til yfirfærsla foreldrastöðu fer fram. Samkvæmt frumvarpinu fer yfirfærsla foreldrastöðu barns fram hjá sýslumanni eða dómstólum í fyrsta lagi tveimur mánuðum eftir fæðingu barns. Almennt er gert ráð fyrir að yfirfærslan öðlist gildi við staðfestingu sýslumanns. Gert er ráð fyrir að vafatilvik og tilvik þar sem aðilar neita að samþykkja yfirfærslu á foreldrastöðu verði leyst fyrir dómi. Ber dómara þá, ef til kemur, að leggja til grundvallar þá niðurstöðu sem er barni fyrir bestu.

Ef fallist er á yfirfærslu á foreldrastöðu öðlast barn frá fæðingu sömu réttarstöðu gagnvart væntanlegum foreldrum og ættmennum þeirra eins og það væri þeirra eigið barn og frá sama tíma falla niður lagatengsl við staðgöngumóður og maka hennar.

Samkvæmt frumvarpinu er barni tryggður réttur til að vita uppruna sinn í kjölfar staðgöngumæðrunar og er sú skylda lögð á foreldra að upplýsa barn eigi síðar en það verður sex ára um að það sé fætt af staðgöngumóður. Barnið getur þegar það nær 16 ára aldri óskað eftir aðgangi að upplýsingum um framkvæmd staðgöngumæðrunar, m.a. hvaðan kynfrumur koma og upplýsingum um kynfrumugjafa.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tæknifrjóvgunarlögum þar sem gert er ráð fyrir að afnema nafnleynd kynfrumugjafa. Þykir tímabært að leggja þessar breytingar til í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 19/2013 og tryggir börnum rétt til að þekkja uppruna sinn.

Frumvarpið bannar staðgöngumæðrun sem fer í bága við markmið og skilyrði laganna og þar með staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni. Væntanlegum foreldrum verður þó heimilt að endurgreiða staðgöngumóður útlagðan kostnað sem er í beinum tengslum við umsóknarferlið, glasafrjóvgun, meðgöngu eða fæðingu barns.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að óheimilt verði að leita eftir eða gera ráðstafanir hér á landi til að nýta sér staðgöngumæðrun í útlöndum sem uppfyllir ekki skilyrði laganna. Í frumvarpinu er lagðar til breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar eru verði staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni heimiluð. Gera þarf breytingar á sjö lagabálkum, þ.e. barnalögum, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, tæknifrjóvgunarlögum, lögum um þjóðskrá og almannaskráningu, lögum um mannanöfn, erfðalögum og lögum um íslenskan ríkisborgararétt.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er nú lagt fram í samræmi við ályktun Alþingis um staðgöngumæðrun frá 18. janúar 2012. Í frumvarpinu er lögð áhersla á að tryggja í fyrsta lagi hag og réttindi barnsins, tryggja í öðru lagi rétt, sjálfræði og velferð staðgöngumóðurinnar og fjölskyldu hennar og tryggja í þriðja lagi farsæla aðkomu hinna væntanlegu foreldra.

Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og leyfi mér að leggja til að því verði vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr. þegar umræðu um það lýkur hér á þingi.