145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:19]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framsöguna. Í stuttu andsvari kemur maður ekki mörgu að, en mig langar að spyrja ráðherra sérstaklega út í 6. gr. sem fjallar um nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Kveðið er á um skipan nefndarinnar og í henni eiga að vera lögfræðingur, sem á að vera formaður nefndarinnar, það á að vera læknir og síðan sálfræðingur eða félagsráðgjafi. Það vakti furðu mína, í ljósi þess að um félagslegt, siðfræðilegt og læknisfræðilegt mat er að ræða, af hverju lögfræðingur væri fenginn til að leiða nefndina en ekki sálfræðingur til að mynda. Ég vil því spyrja út í það atriði.

Eins langar mig að spyrja út í 33. gr. sem lýtur að því að óheimilt er að leita eftir eða gera ráðstafanir hér á landi til að nýta sér staðgöngumæðrun í útlöndum sem uppfyllir ekki skilyrði þessara laga.

Svo er um refsiákvæðin, ég skil ekki nákvæmlega hvernig á að framkvæma þau. Ég ætla ekki út í það hér heldur ætla ég að spyrja: Hafi það farið svo að einhver hafi leitað eftir staðgöngumæðrun erlendis sem teljist ólögleg samkvæmt þessari löggjöf, fær viðkomandi þá yfirfærslu á foreldrastöðu hjá nefndinni þrátt fyrir að hafa orðið uppvís að refsiverðu athæfi?