145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi það sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni hér, um skipan nefndarinnar, þá get ég í sjálfu sér tekið undir þau sjónarmið sem hv. þingmaður setur fram í þeim efnum. Þau eru fullkomlega eðlileg og skiljanleg og eru í raun í mínum huga ástæða til að nefndin ræði í meðförum sínum á frumvarpinu. Ég lýsi því hér yfir að ég get alveg tekið undir þau sjónarmið. Ég tók þann kost að leggja frumvarpið fram í þessari mynd, eins og það kemur frá starfshópnum, án þess að hrófla við því svo neinu næmi.

Hitt atriðið, sem lýtur að fyrirspurn hv. þingmanns um 33. gr., þá er hún í sjálfu sér einnig mjög skiljanleg vegna þess að þetta er töluvert flókið. Í dag er staðan þannig að staðgöngumæðrun er ekki heimil hér á landi. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir því að það verði heimilt að framkvæma staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og nefndin um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hafi heimild til að staðfesta og gera breytingar á foreldrastöðu barna, ef þetta er gert að uppfylltum íslenskum lögum. Það er verið að opna fyrir og greiða leið barna sem verða til með þessum hætti.

Ef nefndin kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að staðgöngumæðrun uppfylli ekki íslensk lög geri ég ráð fyrir að hún hafi ekki annan kost en þann að synja breytingu á foreldrastöðu þar og það mál verði þá rekið fyrir dómstólum. Það væri sú leið sem ég sæi þetta fara.