145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka svarið. Áframhaldandi verður mikil óvissa varðandi börn sem koma erlendis frá, augljóslega. En varðandi nefndina og formennsku í henni þá stakk það mig strax þegar ég las frumvarpið að lögfræðingur ætti að leiða þessa nefnd. En þegar ég las neðar í greinina og sá að hlutverk nefndarinnar væri jafnframt að ákvarða um foreldrastöðu barns sem fæðist í samræmi við erlend lög um staðgöngumæðrun, samkvæmt 26. gr., þá fóru að renna á mig tvær grímur. Þá velti ég fyrir mér að kannski væri það í raun svo að það eigi að vera meginverkefni nefndarinnar að takast á við þær aðstæður.

Af því að ég er mikill andstæðingur þessa máls þá finnst mér óþægilegt hvernig frumvarpið virðist öðrum þræði smíðað utan um það að leysa úr þeim gríðarlega siðferðisvanda og þeim vanda sem skapast fyrir þau börn sem verða til við þessar aðstæður.

Hæstv. ráðherra rakti það ágætlega hvernig þetta mál kom til. Þetta er þingmannamál, sem var síðan samþykkt hér á Alþingi og sent til ráðherra, til að leggja fram. Þetta er umdeilt mál sem snertir djúpstæðar siðferðislegar spurningar. Mig langaði því til að spyrja hvort ráðherra styddi málið.