145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ekki eins og uppsetningin á frumvarpinu er að meginverkefni nefndar um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sé að vinna á þessum erlenda hluta. Mér finnst uppsetningin vera miklu nær því að vanda eins vel til undirbúnings og framkvæmdar á staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni og frekast er kostur og fylgja því síðan eftir. Þannig skil ég meginverkefni nefndarinnar. Annað sem fellur utan verksviðs nefndarinnar, sem leiðir af því ef ekki er hægt að uppfylla íslensku réttarregluna, fer beina leið til dómstólanna.

Þegar fullyrt er hér að þetta mál sé á einhvern hátt vaxið á þann veg að erfitt sé að taka á móti því í þinginu, sem ég skynja ágætlega hjá þingmönnum og hef fullan skilning á, vil ég undirstrika að málið er unnið mjög nákvæmlega eftir þeirri forsögn sem þingsályktunin sagði fyrir um að skyldi gert. Ég tel starfshópinn og alla vinnuna sem í þetta mál hefur verið lagt afar góða og forskriftin sem þingið gaf fylgt mjög vel.

Þegar spurt er hvort ég sé fylgjandi þessu máli svara ég því játandi, ég er fylgjandi því að búin sé til löggjöf um staðgöngumæðrun hér á landi. Hvað varðar hvort þetta sé rétta niðurstaðan er ég ekki að lýsa því yfir að þetta sé hin eina rétta nálgun. Ég treysti þinginu fullkomlega til þess að gera nauðsynlegar breytingar á því frumvarpi sem hér er lagt fram og er ekki með fyrir fram gefna (Forseti hringir.) skoðun á því á hvaða hátt (Forseti hringir.) sú niðurstaða velferðarnefndar verður sem kemur inn til þingsins til afgreiðslu. En ég ítreka að ég er mjög eindreginn talsmaður þess (Forseti hringir.) að sett verði löggjöf um þessi efni á Íslandi.