145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:27]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir yfirferðina áðan. Ég vil vera svolítið á sömu slóðum og hæstv. ráðherra og taka skýrt fram hversu mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að setja lög um staðgöngumæðrun og þá sérstaklega um þau börn sem verða til með staðgöngumæðrun erlendis. Í starfi okkar á Alþingi fáum við oft inn á borð til okkar mál um börn sem verða til með staðgöngumæðrun erlendis, koma frá löndum og ríkjum þar sem eru til lög um þetta og það er leyfilegt. Ríkisvaldið erlendis hjálpar foreldrum eða staðgöngumóðurinni að segja sig frá barninu og hún á ekkert tilkall til barnsins lengur og svo fara nýju foreldrarnir með barnið sitt til síns heima. Þegar það kemur hingað eru börnin í rauninni algjörlega í lausu lofti því að þau hafa engin tengsl á lagalegum grundvelli við fæðingarstaðinn lengur eða móðurina þar. Ég tel mjög brýnt að við skoðum þennan þátt og hvort hægt sé að vinna eitthvað í honum samhliða eða leggja ríkari áherslu á þann punkt. Við getum ekki bannað staðgöngumæðrun í öðrum löndum en við verðum að vera tilbúin að taka á því þegar þessi börn koma til landsins með einhverjum hætti.