145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Ég vil byrja á því að segja að við eigum löggjöf um staðgöngumæðrun, hún er bönnuð í lögum á Íslandi. Í lögum um tæknifrjóvgun er skýrt kveðið á um það. Ég hefði viljað sjá í þessari vinnu hvernig við tökum á því þegar fólk sækir með ólögmætum hætti staðgöngumæðrun í útlöndum, í stað þess að vera að lögleiða hana hér.

Hér eru stór mál undir. Hér er heill barna undir, hér er siðferðisleg nálgun okkar á þá gjöf að geta af sér barn og hvernig við ætlum að meðhöndla það. Þetta varðar fólk sem getur ekki átt börn af einhverjum ástæðum og það eru miklar tilfinningar undir á báða bóga. Hér er fólk sem er algerlega hlynnt málinu, fólk sem er algerlega andvígt málinu og fólk sem vill skoða málið frá fleiri hliðum.

Þetta er mikið frumvarp og mikil vinna liggur hér að baki með góðri yfirferð, þetta eru 92 blaðsíður. Ég er búin að lesa obbann af því en viðurkenni að ég mun lesa það enn betur á næstu dögum þegar við fáum það til umfjöllunar í velferðarnefnd.

Við lestur þessa máls vakna upp mjög stórar spurningar. Ein af þeim er sú sem ég ætla að taka hér sem dæmi. Hún varðar það þegar væntanlegir foreldrar skuldbinda sig, undirrita skjal um að þeir skuldbindi sig til að sækja um yfirfærslu á foreldrastöðu í samræmi við ákvæði barnalaga, sem við erum líka að breyta hér. Í greinargerð um 9. gr. frumvarpsins sem fjallar um þetta segir, með leyfi forseta:

„Skuldbinding væntanlegra foreldra um að þeir sæki um yfirfærslu á foreldrastöðu barnsins er mikilvæg til að leitast við að afstýra því að þær aðstæður komi upp að enginn vilji annast barn sem alið er af staðgöngumóður. Skuldbinding þessi er af siðferðilegum toga en ekki lagalegum og eru strangari kröfur gerðar að þessu leyti til væntanlegra foreldra en staðgöngumóður, sem þarf ekki að skuldbinda sig til þess að afhenda barn sem hún elur, enda eru það væntanlegir foreldrar sem hefja staðgöngumæðrunarferlið.“

Þarna er sem sagt siðferðileg skylda en ekki lagaleg skylda og það er mjög óljóst hvernig greiða á úr öllum þeim fjölmörgu málum sem upp kunna að koma í sambandi við fæðingu barns. Það vita allir að barneignum, meðgöngu og foreldrahlutverkinu fylgja mjög flóknir hlutir, bæði andlegir og félagslegir þættir og ekki síður líkamleg eða læknisfræðileg áhrif á móðurina. Síðan geta afdrif barna orðið með ýmsum hætti. Í raun og veru erum við að setja löggjöf um heill barna en það virðist allt eiga að vera opið. Við erum þarna með óvissusvæði og við getum vel ímyndað okkur að það séu kannski þau börn sem helst þurfa á mikilli umönnun og ástúð foreldra að halda sem lenda í þessu einskismannslandi. Það verður merkilegt að þurfa að fara í umræðu um hvernig við ætlum að meðhöndla það. Ég tók sem dæmi eina af þeim spurningum sem vaknað hafa hjá mér nú þegar og vekja ekki hjá mér góðar tilfinningar, svo vægt sé til orða tekið.

Ég hefði talið eðlilegt að við værum bara staðföst í löggjöf okkar. Barnleysi er alvarlegt mál og við, löggjafinn, höfum með ýmsum hætti reynt að finna leiðir til að auðvelda fólki barneignir í tengslum við tæknifrjóvganir, glasafrjóvganir, ættleiðingar o.fl. Við þyrftum þá að fara yfir það. Það þarf fjármuni inn í þessa málaflokka og það þarf að vinna betur í þeim. Ég held að það væri alveg hægt að sameinast um það, ég tel að við værum tilbúin til að fara í það af fullum krafti.

En við búum við það vandamál að hingað koma foreldrar með börn sem getin eru erlendis, það eru mál sem ratað hafa fyrir dómstóla. Þá umræðu þurfum við að taka hvernig við sem samfélag ætlum að takast á við það. Í fjórum greinum er fjallað um börn og foreldra sem koma frá útlöndum. Það er í 6. gr. um nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, sem er skipuð til fjögurra ára og fær gríðarlega mikil völd. Þar á lögfræðingur að leiða nefndina, enda mun þar þurfa að takast á við mjög lögfræðilegt mat á löggjöf annarra ríkja varðandi staðgöngumæðrun. Á Indlandi er til dæmis engin löggjöf en hún er heimil ef hún er í hagnaðarskyni. Það mundi þá væntanlega ekki falla hér undir, enda er það í algerri andstöðu við Ísland og er farið ágætlega yfir það í greinargerðinni hvernig mismunandi ríki haga þessu. Fyrirkomulagið er með ýmsu móti og ekki er nein samræmd stefna í því. Það koma því upp mjög flóknar lögfræðilegar spurningar. Það er því spurning hvort nefnd sem þessi geti verið með svo ólík og tvíþætt hlutverk því að þetta eru algerlega aðskilin verkefni.

Í 26. gr. er fjallað um foreldrastöðu barns sem fætt er samkvæmt erlendum lögum um staðgöngumæðrun. Þar segir hvernig nefndin eigi að bera sig að ef hún synjar um staðfestingu á foreldrastöðu, þá skuli hún tilkynna um aðstæður barnsins til barnaverndarnefndar í umdæmi þar sem barnið dvelst. Við viðurkennum þá væntanlega ekki breytta foreldrastöðu eða yfirfærslu á foreldrastöðu samkvæmt lögum í öðrum ríkjum. Þá á barnið foreldra einhvers staðar annars staðar og þá þarf að meta hvort senda eigi barnið til baka eða koma því til fósturs og ættleiðingar hjá einhverjum öðrum á Íslandi. Það er verkefni sem nefndin á að takast á við, læknirinn, sálfræðingurinn eða félagsfræðingurinn og lögfræðingurinn sem leiða nefndina.

Í 33. gr. er svo talað um staðgöngumæðrun yfir landamæri. Óheimilt er að gera ráðstafanir hér á landi til að nýta sér staðgöngumæðrun í útlöndum sem ekki uppfylla skilyrði þessara laga og óheimilt er að hafa milligöngu hér á landi um staðgöngumæðrun í útlöndum. Svo er farið yfir refsirammann sem getur verið sekt frá 500 þús. kr. upp í fangelsi allt að þremur árum samkvæmt 34. gr.

Síðan erum við líka að breyta lögum um ríkisborgararétt. Ef nefndin heimilar yfirfærslu á foreldrastöðu fá börn íslenskt ríkisfang sé annað foreldrið eða báðir foreldrar íslenskir ríkisborgarar. Í frumvarpinu er töluvert fjallað um þau mál. Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnast þetta tvö aðskilin málefni og að ekki sé með nógu skýrum hætti tekist á við það vandamál sem við stöndum frammi fyrir þegar í dag, en svo erum við komin með heilmikla löggjöf um hvernig við ætlum að heimila staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Við munum fá málið til nefndarinnar. Ég geri ráð fyrir að þar séu skiptar skoðanir og við munum meðhöndla málið af sömu fagmennsku og önnur mál sem við fáum í nefndina. En það er augljóst að það verða margir umsagnaraðilar og mikil umræða um málið.

Ég vildi fyrst og fremst koma inn á þá þætti er varða stöðuna erlendis, ég kom ekki inn á ýmsa aðra. Ég kom inn á það að óljóst er hvað verður um barn þar sem væntanlegir foreldrar gangast ekki við siðferðislegri skuldbindingu sinni. Fjöldinn allur af slíkum spurningum vaknar við lestur þessa frumvarps. Ég vil að þingheimur geri sér grein fyrir því að ef frumvarpið verður að lögum erum við að bjóða íslenskum ungum konum upp á að þurfa að svara spurningu fólks sem þeim þykir vænt um og er þeim náið og hefur jafnvel þekkt alla ævi: Viltu ganga með barn fyrir mig?

Ég er nú komin á þann aldur að ég mun blessunarlega aldrei þurfa að svara þeirri spurningu. Ég vona að við setjum ekki íslenskar konur í þá stöðu að þurfa að svara þeirri spurningu. Ég ætla ekki að fjalla frekar um þetta mál fyrr en í 2. umr.