145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:41]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og treysti henni fullkomlega til þess að fara með þetta til nefndarinnar og ræða það þar.

Mig langar að nýta tækifærið og reyna að glöggva mig á því sem hv. þingmaður fór yfir og á skoðun hennar á málefninu, t.d. í sambandi við það sem er að finna í íslenskum lögum og siðferðið sem oft er nefnt í þessu samhengi, til að mynda hvað varðar þá aðstoð sem er í boði í dag. Ef kona er með leg í lagi getur hún fengið gjafaegg og jafnvel sæði frá óþekktum einstaklingi til að láta frjóvga það en ef kona er með ónýtt leg en egg í lagi getur hún ekki fengið aðstoð, t.d. með því að frysta eigin egg til notkunar á annan hátt síðar. Svo er það hvar siðferðið tekur í rauninni yfir. Það er sem sagt í lagi fyrir konu að fá gjafaegg frá annarri konu og eignast líffræðilega hennar barn svo lengi sem hún heldur því. Þetta er í lögum í dag. En og um leið og hún mundi ætla að færa líffræðilegri móður barnsins barnið er það orðið að brotum á lögum og þá kannski mögulega því siðferði sem oft er komið inn á.

Hver er skoðun hv. þingmanns á þessum mun? Hvar ættu skilin ættu að vera, svona fyrst við erum að ræða þetta?

Svo vil ég ítreka að í þessu frumvarpi er verið að tala um fulla staðgöngu, ekki þessa hefðbundnu staðgöngu, þ.e. fulla staðgöngu þar sem staðgöngumóðirin verður ófrísk með glasafrjóvgun og egg tilvonandi móður er frjóvgað með sæði tilvonandi föður. En þótt kynfrumur parsins séu notaðar gefur það þeim hvorki rétt yfir líkama staðgöngumóðurinnar né yfir barninu sem fæðist.