145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:47]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég tel það eðlilegt. Ég er alveg sannfærð um og skal sjá til þess að það komi til umræðu. En svo eru hlutirnir með ýmsu móti í mannlegu samfélagi. Sumt er hægt að koma til móts við, annað er kannski ekki hægt að koma til móts við. Það er ekki þannig að þótt hægt sé að koma til móts við einn hóp verðum við nauðsynlega að koma til móts við alla hópa. En við eigum að leitast við að finna leiðir eins og þegar kemur að barnleysi, þá er almennur vilji fyrir því að finna leið. Ég held að í þessum þingsal sé vandfundin sú manneskja sem ekki er tilbúin til þess að finna leiðir sem auðvelda það. En þá komum við að spurningunni: Hvað er siðferðilega verjandi að ganga langt í þeim efnum?

Ég tók hér dæmi um gjafaegg og gjafasæði þar sem nafnleysi er algert og barn er hindrað með lögum í að leita uppruna síns. Það finnst mér orka mjög tvímælis. Það fór í gegnum þingið á sínum tíma. Það var mjög umdeilt og við sem höfum lögfest barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna ættum í raun og veru að endurskoða þá löggjöf. Þess vegna treysti ég mér ekki, og síst af öllu á þessum stað í umræðunni, til þess að draga einhverja línu sem segir hvar við getum farið yfir og hvar ekki. Það skiptir máli að við förum varlega í þessum efnum. Það sem margir óttast er að með því að setja þessa löggjöf hér á landi aukist þrýstingurinn og krafan á að hægt sé að sækja börn til annarra staða, jafnvel þar sem staðgöngumæðrun er í raun og veru grófur (Forseti hringir.) iðnaður þar sem börn eru söluvaran.