145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[14:49]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég staldra við nefndina um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, sem hv. þingmaður átti orðastað um við ráðherrann hér við framsöguna, og velti fyrir mér hlutverki hennar. Nú lítur út fyrir að það sé tvíþætt, eins og það er sett fram hér, og hv. þingmaður velti fyrir sér mönnuninni, hvort hún væri með eðlilegum hætti. Ef maður rýnir aðeins betur í þessi verkefni þá eru þau svo ólík að áhöld eru um það að mínu mati. Mér finnst það vera eitthvað sem nefndin þarf að taka sérstaklega til skoðunar. Ég vona að þetta mál verði aldrei afgreitt frá Alþingi, svo að það sé sagt.

Við erum annars vegar að tala um að nefndin veiti leyfi til staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni, það er innanlandsviðfangsefni samkvæmt lögunum, að þeir sem sækja um njóti faglegrar ráðgjafar o.s.frv. þannig að allt sé gert eins og best verður á kosið hér. En síðan er það þetta svakalega verkefni, þetta rosalega verkefni, þar sem öll jarðarkringlan er undir, þegar komið er að því að meta foreldra og ákvarða foreldrastöðu barns sem fæðist í samræmi við einhver erlend lög um staðgöngumæðrun, samkvæmt 26. gr., þ.e. að meta það hvort þau falli að lögunum hér og fleyta síðan málinu áfram. Ef það fellur ekki að lögunum hér þarf að láta barnaverndaryfirvöld á viðkomandi svæði vita af barninu, vita af því að þarna sé barn í reiðileysi og síðan á barnaverndarnefnd að ákveða til hvaða úrræða eigi að grípa með hliðsjón af því hvort barnið njóti tryggrar forsjár hér á landi eða (Forseti hringir.) ekki.

Ég bara spyr, virðulegur forseti, og spyr hv. þingmann: Er ekki hér verið að skapa algjörlega glæný vandamál sem þessi lög taka engan veginn á?