145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[15:13]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er svolítið að reyna að glöggva mig á skoðunum hv. þingmanna á þessu frumvarpi. Í þingsályktuninni segir meðal annars að skýrt verði kveðið á um traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur. Í þessu frumvarpi er reynt að bæta úr því sem sett var út á í títtnefndri skýrslu. Svo er umræða nú um málið.

Varðandi skilyrði staðgöngumóður skal vera höfð hliðsjón af lögum um ættleiðingar og lögum um tæknifrjóvgun og tilheyrandi reglugerðum. Hægt er að lesa nánar um hvert og eitt skilyrði í greinargerð frumvarpsins. Líka er lagt mikið upp úr því að staða væntanlegra foreldra eigi að vera sem líkust stöðu foreldra annarra barna í samfélaginu en þó skuli það tekið skýrt fram að staðgöngumóðir hafi fullt sjálfræði á meðgöngu. Það er því ekki hægt að tala um að við ætlum konum eitthvað því að ekkert samkomulag getur tekið frá konu þann skýlausa rétt að ráða yfir eigin líkama, hún ákveður hvort hún þiggur ákveðnar meðferðir á meðgöngunni, hvort hún fari í fyrsta lagi út í þetta, hvort hún fari í fóstureyðingu ef eitthvað kemur upp á og hvernig hún hagar sínu lífi. Ekki er gert ráð fyrir að úrskurðað verði um ágreiningsefni sem upp koma því að hún hefur fullt sjálfræði.

Ég hef fulla trú á því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi vit á norrænni löggjöf þar sem hann minntist aðeins á að bera hana saman við þetta mál. Í þessari umræðu langar mig að spyrja hv. þingmann, þar sem hann talar um að ýmis úrræði hafi verið bætt í frumvarpinu, hvað hann telji að hafi ekki verið bætt í frumvarpinu.