145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[15:32]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðu hans. Ég er á sama máli og hv. þingmaður, þessi umræða er ekki gerð til að breyta skoðunum neinna heldur til að fjalla um frumvarpið. Ég er líka sammála honum um að núverandi ástand þar sem fólk fer utan og nýtir sér staðgöngumæðrun fyrir borgun gangi ekki og þess vegna vil ég taka þátt í umræðunum í dag. Í frumvarpinu er meðal annars komið inn á að samkomulag sé ekki bindandi milli staðgöngumóður og væntanlegra foreldra. Það er vegna skilyrðislauss réttar konu til að ráða yfir eigin líkama. Ekkert getur tekið frá konu þann rétt að teljast móðir barns sem hún gengur með og fæðir og skiptir þá engu þótt kynfrumur annarra hafi verið notaðar, það gefur ekki réttinn yfir líkama staðgöngumóður eða yfir barninu sem fæðist. Mér finnst mjög vel komið inn á rétt staðgöngumóðurinnar í frumvarpinu. Einnig er lögð rík áhersla á að setja hagsmuni barns ofar hagsmunum væntanlegra foreldra. Spurning mín til þingmannsins, sem hefur fylgt þessu máli frá því að það kom fyrst til umræðu hérna, er hvort nægilega sé komið inn á rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Konur verða sjálfar að taka ákvörðun um að fara út í staðgöngumæðrun og þær ráða sér algerlega sjálfar frá upphafi til enda, meðan á meðgöngunni stendur og svo við fæðingu barnsins.