145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[16:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þessa andsvars segja að ég er sjálf andsnúin þessi máli af gríðarlega mörgum ástæðum, margar þeirra voru nefndar í ræðu hv. þingmanns. Það er ekki vegna þess að maður vilji ekki að fólk geti stofnað til fjölskyldu eða annað en því fylgja of margir áhættuþættir varðandi afleiðingarnar að fara þessa leið. Ég tel að við séum ekki bær til þess að svo stöddu. Mér finnst við ekki hafa náð að svara öllum álitamálunum í umræðunni. Mér fannst hv. þingmaður fara ágætlega yfir það.

Mig langar að nefna nokkra þætti og spyrja hv. þingmann. Hún talaði mikið um barnið og hvað því yrði sagt þegar það væri orðið sex ára og hvaða afleiðingar það gæti haft, en samkvæmt þessu frumvarpi á að gera það. Ég velti fyrir mér hvort hún viti til þess að sálfræðingar hafi skilað einhvers konar niðurstöðum um það og hvort menn hafi eitthvað heyrt almennt í þeirri stétt sem vinnur mest með börnin, hvort kennarar, félagsráðgjafar og aðrir sem eru mikið í kringum þau hafi komið að þeirri vinnu að svara þeim spurningum hvaða áhrif þetta gæti haft á börnin til lengri tíma. Af hverju er miðað við sex ár en ekki eitthvað fyrr eða seinna? Mig langaði að spyrja hana hver aðkoma þessara hópa væri að þessari vinnu.

Þá langar mig líka að spyrja hv. þingmann um annað. Hún talar eins og það sé í raun verið að samningsbinda konur. Ég er alveg sammála henni og ég hef áhyggjur af því hvar mörkin verða dregin við kostnað sem þeir foreldrar sem fá síðan barnið gera (Forseti hringir.) samning um við staðgöngumóðurina. Hvar munu menn draga mörkin með kostnað? Hvað ef staðgöngumóðirin dettur út (Forseti hringir.) af vinnumarkaði á meðan á þessu stendur? Eru menn þá farnir að greiða henni laun eða hvað?