145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[16:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég mætti kannski tala betur um það sem ég kallaði samningsbundna staðgöngumæðrun. Hér er talað um viljayfirlýsingu en samþykki til staðgöngumæðrunar skal vera skriflegt og staðfest fyrir nefnd um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni, eða starfsmanni hennar, sem vottar að hverjum og einum umsækjanda hafi verið leiðbeint um réttaráhrif samþykkis og staðgöngumæðrunar. Þarna er farið yfir það. Þetta er nokkurn veginn eins og samningur nema það er tekið fram að fólk geti gengið út, þ.e. ekki er unnt að krefjast efnda á þeim atriðum sem fram koma í gagnkvæmri viljayfirlýsingu en staðgöngumóðir og maki hennar geta þó eftir atvikum krafist endurgreiðslu á þeim kostnaði sem þau hafa lagt út fyrir hverju sinni og gert er ráð fyrir í gagnkvæmri viljayfirlýsingu.

Þetta er svo viðkvæmt mál og snertir kjarnann í því að vera manneskja. Við höfum öll sagt hér að við erum ekki að tala um staðgöngumæðrun í hagnaðarskyni og það er ekki verið að tala um það. Auðvitað hefur maður áhyggjur af því að hér sé verið að setja löggjöf og síðan komist á einhver praxís og það verði til einhver mörk. Við erum þegar að færa mörkin — með því að setja mörkin verðum við búin að færa þau. Skiljið þið hvað ég á við? Við færum mörkin sem snúa að því hvernig sé eðlilegt að hugsa um barnsfæðingu og konu. Hvert getur það leitt okkur? Hv. þingmaður spyr hvort það geti valdið því hreinlega að staðgöngumóðirin fari að rukka ríflegan kostnað og það verði nánast eins og umbun. Það er auðvitað ekki ætlunin með þessu frumvarpi. Það sem maður hefur áhyggjur af er hvernig þessi mörk muni þróast því að við erum að færa þau til núna og við getum ekki séð það fyrir. En það er auðvitað ekki ætlunin.

Hvað varðar aðkomu annarra fagaðila þá treysti ég mér í raun og veru ekki til að segja meira um það en stendur í greinargerðinni. (Forseti hringir.) Ég kem betur að því á eftir.