145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[16:21]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ræðuna. Hún var mjög öflug og tilfinningarík og snerti vel við manni. Sem nýr meðlimur í velferðarnefnd hef ég velt þessu mikið fyrir mér undanfarið. Ég hef ekki mikið fylgst með vinnu við þessi mál áður eða þessari umræðu, enda hefur þetta alltaf verið mjög eldfimt efni.

Svona staðgöngumæðrun virðist viðgangast og það er verið að fá manneskjur til að ganga með börn fyrir sig. Eins hefur fólk reynt að fá börn erlendis frá og annað en mig langar að spyrja hv. þingmann: Er ekki bara betra að hafa þetta í lögum þannig að við getum unnið eftir lögum? Þetta er neðanjarðarstarfsemi og eins og kom í ljós í fréttum fyrir ekki löngu hafa komið upp mjög erfið mál sem virðist erfitt að leysa. Er ekki betra að hafa þetta fast í lögum?