145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[16:41]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tel ekki að þótt eitthvað eigi sér stað sé ásættanlegt að búa til lagaumgjörð um það til þess að réttlæta það. Það væri þá hægt að yfirfæra á svo margt annað sem við teljum ekki eiga að viðgangast í dag, að við skrifuðum upp á það að af því að komin væri ákveðin hefð fyrir því settum við lagaumhverfi um það.

Þótt það sé algjörlega óskylt mál er því miður mikil neysla á sterkum ólöglegum fíkniefnum á Íslandi. Viljum við þá lögleiða þau og skrifa upp á slíkt, þótt ég taki fram að það er auðvitað gjörólíkur hlutur?

Maður getur ekki réttlætt eitthvað sem maður telur rangt með því að setja um það lagaumgjörð, að vegna þess að það hafi viðgengist sé það allt í lagi og samfélagið verði að gangast inn á það og samþykkja sem sjálfsagðan hlut. Hvar liggja þá mörkin? Hvar ætlum við að draga línuna? Ef okkur finnst ekki sem samfélagsþegnar og þingmenn að hlutirnir eigi að vera svona þá höldum áfram að vinna gegn því að þeir séu þannig frekar en að gangast inn á að þeir séu allt í lagi vegna þess að þeir séu orðnir að veruleika (Forseti hringir.) að einhverju leyti og þar af leiðandi ættum við að setja um það lög.