145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

229. mál
[16:43]
Horfa

Fjóla Hrund Björnsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Takk fyrir þetta, hv. þingmaður. Það sem ég var að velta fyrir mér var hvort ekki væri kjörið að hafa þetta uppi á borðinu og leyfa konunum sem kjósa að verða staðgöngumæður að taka ákvörðun sjálfar. Viljum við taka valdið frá þeim með því að segja: Nei, við ætlum ekki að setja lög um þetta? Viljum við ekki frekar færa valdið til þeirra og treysta þeim til þess að taka þá ákvörðun sem þær telja réttasta í þessu? Ég er bara að spyrja hvort ekki sé rétt að leyfa konunum að taka ákvörðun sjálfar um það hvort þær kjósi að verða staðgöngumæður.