145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

228. mál
[17:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum, og lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta hefur þann megintilgang að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 9. mars 2011 um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar frá 20. desember 2012 um ráðstafanir til að auðvelda viðurkenningu á lyfseðlum sem gefnir eru út í öðrum aðildarríkjum.

Einnig er lögð til sú breyting að bæta við lögin skilgreiningu á hugtakinu „alþjóðlega viðurkennd læknismeðferð“ og kemur það til vegna tilmæla umboðsmanns Alþingis um að skýra þurfi hugtakið nánar í lögum.

Frumvarpið felur í sér þær breytingar að sjúkratryggðum einstaklingum er veittur réttur til þess að velja að sækja heilbrigðisþjónustu innan Evrópska efnahagssvæðisins. Markmið tilskipunarinnar er að greiða fyrir aðgengi að öruggri hágæðaheilbrigðisþjónustu yfir landamæri, tryggja frjálst flæði sjúklinga innan sambandsins og stuðla að samvinnu um heilbrigðisþjónustu á milli aðildarríkja. Tilskipunin hefur ekki áhrif á ábyrgð aðildarríkjanna til að veita borgurum sínum örugga og skilvirka heilbrigðisþjónustu í háum gæðaflokki.

Með innleiðingu tilskipunarinnar, um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, er sjúkratryggðum einstaklingum veitt heimild til þess að velja að sækja heilbrigðisþjónustu til annars EES-ríkis og fá þann kostnað endurgreiddan frá Sjúkratryggingum Íslands að því marki sem hann fengi ef þjónustan hefði verið veitt hér á landi. Skilyrði fyrir endurgreiðslu er að sams konar þjónusta sé hluti þeirrar þjónustu sem Sjúkratryggingar taka þátt í að greiða hér á landi. Sú krafa sem nú er við lýði og varðar ófrávíkjanlegt skilyrði um að ætíð sé sótt um fyrirframsamþykki fyrir því að sækja þjónustuna til annars EES-ríkis var talin hindrun á frjálsu flæði þjónustu innan sambandsins og með setningu umræddrar tilskipunar var þeim hindrunum rutt úr vegi.

Tilskipunin veitir þó sérstakar heimildir til að ríkin setji ákveðnar kröfur um fyrirframsamþykki og gerir umrætt frumvarp ráð fyrir því að þær heimildir verði ekki nýttar. Var sú ákvörðun tekin annars vegar þegar litið var til þeirrar leiðar sem farin var í Noregi við innleiðingu tilskipunarinnar og hins vegar eftir samráð við Sjúkratryggingar Íslands sem munu fara með hlutverk innlends tengiliðar við framkvæmd tilskipunarinnar.

Í frumvarpinu er lagt til að gerð verði breyting á lyfjalögum til þess að innleiða framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar um ráðstafanir til að auðvelda viðurkenningu á lyfseðlum sem gefnir eru út í öðrum aðildarríkjum. Með breytingunni verður lyfseðill ekki lengur einungis gild lyfjaávísun læknis, tannlæknis eða dýralæknis sem hafa gild lækningaleyfi hér á landi, heldur munu lyfseðlar sem gefnir eru út af læknum, tannlæknum og dýralæknum með gild lækningaleyfi í aðildarríkjum EES-samningsins vera gildar lyfjaávísanir hér á landi, þó í samræmi við þær reglur sem gilda um ávísanir og afhendingu lyfja.

Í fyrirliggjandi frumvarpi er kveðið á um rétt sjúkratryggðra til að velja að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þeim tilvikum er Sjúkratryggingum Íslands gert að endurgreiða kostnað eins og um heilbrigðisþjónustu innan lands væri að ræða, að því gefnu að greitt sé fyrir sams konar þjónustu hér á landi. Með frumvarpinu er áhersla lögð á að jafnræði ríki í meðhöndlun sjúklinga og að þjónustan sé veitt út frá þörf þeirra fyrir heilbrigðisþjónustu fremur en á grundvelli þess í hvaða ríki þeir eru tryggðir.

Enn fremur er mat stjórnvalda það að ekki verði algengt að sjúklingar kjósi frekar að sækja þjónustu út fyrir landsteinana. Mikill meiri hluti sjúklinga innan EES-samningsins fær heilbrigðisþjónustu í sínu heimalandi og kýs það öðru fremur. Við sérstakar aðstæður getur það verið heppilegra fyrir einstaklinga að sækja þjónustu yfir landamæri og á það sér í lagi við um svæði nálægt landamærum þar sem styttra er að sækja þjónustuna yfir landamæri en í því aðildarríki sem viðkomandi er búsettur. Eðli málsins samkvæmt á það hins vegar ekki við hér á Íslandi.

Einnig geta komið upp aðstæður þar sem einstaklingar kjósa að vera nálægt aðstandendum sínum og vilja þess vegna sækja þjónustu í öðru EES-ríki. Slík tilvik geta ef til vill komið upp hér á landi og má ætla að einstaklingar sem hafa flutt hingað frá öðrum aðildarríkjum gætu hugsað sér að sækja þjónustu í sínu upprunalega heimalandi, nálægt ættingjum sínum þar. Þó er allsendis óljóst í hve miklum mæli það gæti orðið.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarps en breytingar þær sem hér eru lagðar til eru réttarbót fyrir sjúkratryggða einstaklinga sem hafa hug á að sækja heilbrigðisþjónustu til annars ríkis innan Evrópska efnahagssvæðisins. Leyfi ég mér því að leggja til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til velferðarnefndar og 2. umr.