145. löggjafarþing — 23. fundur,  20. okt. 2015.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

228. mál
[17:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Þetta er mikilvæg spurning. Út frá því er gengið í frumvarpinu eins og það liggur hér fyrir að ekki þurfi fyrirframsamþykki. Við sækjum fyrirmyndina að því meðal annars til Noregs. Þetta er sömuleiðis gert í Finnlandi og Svíþjóð með þessum sama hætti. Hjá landlæknisembættinu er hins vegar unnið að ákveðnum viðmiðum um æskilegan eða eðlilegan biðtíma í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Við höfum ekki neglt það niður nákvæmlega.

Það er hins vegar alveg ljóst í mínum huga, út frá óvissunni um það með hvaða hætti þessi réttur verður nýttur, að mesti þrýstingurinn á notkun á þessari heimild felst í samhenginu við biðlista í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Eftir því sem þeir verða lengri, þeim mun líklegra er að rétturinn sem mælt er fyrir í frumvarpinu eins og það liggur hér fyrir verði nýttur. Ég ítreka, og það kemur raunar líka fram í kostnaðarumsögninni með frumvarpinu frá fjárlagaskrifstofunni, að það er gríðarleg óvissa bæði um fjárhagslega þætti varðandi framkvæmd tilskipunarinnar í frumvarpinu og ekki síður að það er nánast algjör óvissa um hversu mikið þessi réttur verður notaður. Þetta mat stafar kannski fyrst og fremst af því. Við rennum algjörlega blint í sjóinn en við komumst hins vegar ekki lengur hjá því að innleiða þessa tilskipun.